Fara í efni

ALDARMINNING ANDRÉSAR: LIFAÐ OG SKRIFAÐ

Andres Bjornsson
Andres Bjornsson

Í dag eru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Andrésar Björnssonar, fyrrverandi útvarpsstjóra.

Eldri kynslóðin - að ekki sé minnst á elstu kynslóðina - man hljómþýða rödd þessa mikla menningarmanns en fáir stóðu honum framar við ljóðaupplestur. Sjálfur var hann einnig skáldmæltur vel.

Eftirminnilegar eru og hugvekjur hans á gamlársköld og mátti undrum sæta hve öflugur hann var í samkeppninni við eldflauga- og stjörnuljósadýrðina þegar gamla árið kvaddi og hið nýja gekk í garð. Þau voru ófá sem ekki varð haggað fyrr en Andrés hafði lokið máli sínu, kvatt gamla árið og heilsað hinu nýja. Þótti fólki gott að heyra talað á dýptina á þessari tilfinningaþrungnustu stund ársins.

Árámótahugleiðingar Andrésar voru gefnar út í bókinni, Töluð orð, og fyrir nokkrum árum var gefinn út hljómdiskur með upplestri hans. Þá hefur Gunnar Stefánsson, útvsarpsmaðurinn góðkunni, gert vandaða þætti um Andrés Björnsson og verður þáttur sem Gunnar gerði árið 1999, skömmu eftir að Andrés lést og hann nefndi "Lifað og skrifað", endurfluttur á sunnudag (19.mars) klukkan 15.

Hinn 6. desember síðastliðinn voru hundrað ár liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárn, fyrrverandi forseta. Gerði Morgunblaðið aldarminningu hans góð skil. Þar á meðal var prýðileg grein eftir Björn Bjarnason þar sem hann meðal annars vitnaði í minningargrein Andrésar um Kirstján en þeir voru mjög nánir vinir, Andrés og Kirstján, og sennilega um margt líkir.

Sjálfum þótti mér lýsing Andrésar á Kristjáni vel hefði hæft honum sjálfum:
„Alhliða gáfur, íhygli, yfirgripsmikil þekking á fjölmörgum sviðum, meðfædd kurteisi og alþýðleg framkoma og umgengniskunnátta við háa sem lága, tandurhreinir íslenzkir eðliskostir, vörðuðu veg hans og öfluðu honum trúnaðar og fylgis almennings í þessu landi alla hans embættistíð."