Fara í efni

ÁLFÍKLAR Í RÍKISSTJÓRN

Helst held ég að auglýsingaráðgjafar Framsóknarflokksins hafi lamið á puttana á iðnaðar- og byggðamálaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, eftir makalausa álræðu hennar á þingi Samtaka iðnaðarins í vikunni sem leið. Morgunblaðið gerði m.a. þessa ræðu að umræðuefni í leiðara helgarblaðsins og var bersýnilega ekki skemmt. Í fréttum RÚV í kvöld kom síðan Valgerður Sverrisdóttir með yfirlýsingu þess efnis að hugsanlega væri séð fyrir endann á smíði álvera í landinu, ekki væri gott að setja öll eggin í sömiu körfu, nú væri komið að hátækni iðnaði o.s.frv., allt eins og talað út úr munni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þetta var ráðherranum þó slík raun að þurfa að segja þetta að í lokin missti hún út úr sér að þó myndum við nú sennilega smíða eitt eða tvö álver í viðbót. Þarna sagði álfíknin til sín.

Fyrrnefnd ræða hjá Samtökum iðnaðarins var með slíkum ólíkindum að nú hlýtur að fjölga í þeim hópi sem krefst þess að nú linni álæði ríkisstjórnarinnar. Í landinu eru nú framleidd 268 þúsund tonn af áli á ári en fyrir lok áratugarins verður framleiðslan komin í 760 þúsund tonn. Þetta upplýsti Valgerður Sverrisdóttir hróðug en sem kunnugt er vill hún miklu meira ál og hefur í allt sumar ætt um landið með erlendum álfurstum og boðist til að virkja Skjálfandafljót eða vötnin í Skagafirði, allt er falt.

Yfirlýsing ráðherrans í kvöldfréttum var því miður ekki sannfærandi og ekki í nokkru samræmi við hennar eigin orð og athafnir. Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Gefum iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sjálfum orðið. Þar var komið í ræðu hennar að vel hefði gengið að laða að stóriðjufyrirtæki: "Við Íslendingar stöndum á tímamótum í þróun orkufreks iðnaðar. Eftir áralangan aðdraganda og þrotlausa vinnu við að finna leiðir til að nýta orkulindir landsins til atvinnuuppbyggingar er nú svo komið að færri komast að en vilja. Umfangsmikil markaðsvinna á síðasta áratug við að vekja athygli erlendra fjárfesta á ágæti landsins til þess að reisa hér orkufrekan iðnað hefur skilað sér á undraverðan hátt, þannig að nú er talað um Ísland sem best varðveitta leyndarmálið í Evrópu meðal álframleiðenda og er þá vitnað til þess hve aðstaða hér á landi er góð fyrir þess háttar framleiðslu... Það hefur tekið heil 50 ár að ná þessum árangri og endurspeglast hann hvað best í því að nú þegar hafa sex heimsþekkt álfyrirtæki sýnt áhuga á að fjárfesta í nýjum álverum á Íslandi á næstu árum,"

Hvað skyldi vera best varðveitta leyndarmálið í álbransanum í heiminum, lágt orkuverð eða lítilþæg ríkisstjórn? Nema þetta tvennt fari saman?