Allt í lagi í landinu
Jólaþáttur varaborgarfulltrúa sjálfstæðismanna í Reykjavík snerist aldrei þessu vant um landsmálin. Þetta var þátturinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Hann spurði talsmann ríkisstjórnarinnar um ástandið í landsmálum. Sá sagðist ekki vera bjartsýnn, heldur raunsær, einkum í efnahagsmálum. Hann lofaði að við værum að komast aftur á loft, raunar hefði aldrei orðið nein raunveruleg niðursveifla, og vissulega væri bjart framundan. Nema kannski í þinghúsinu. Þar væru átök og uppnám. Góðlátlega benti talsmaðurinn á að þegar menn leggðu aftur dyrnar og kæmu út á Austurvöll gengju þeir út í friðinn og bjartsýnina, út í raunveruleikann! Hann sagði að lífið í þinghúsinu væri leikrit. Varaborgarfulltrúinn brosti; allt satt og rétt. Hinn geðþekki þáttastjórnandi spurði ekki um mótmælin við virkjanir á Austurvelli, þessa þrjú þúsund sem eru atvinnulausir á aðventunni, eða strauminn sem er á úthlutunarstofur Mæðrstyrksnefndar og Rauða krossins sökum fátæktar. Þeir ræddu hvað valdamestu menn í heimi spjölluðu hver við annan við pissuskálarnar í Bildenbergklúbbnum og þeir ræddu bókmenntir. En af því minnst er á að úrínera og rýna í bækur, þá hefðu þeir kannski átt að fara alla leið og reyna að nálgast raunveruleikann með því að ræða stuttlega um Pétur Pálsson Þríhross og Júel J. Júel. Þeim var líka efst í huga að allt er í lagi í landinu.