ALMENNINGI GEFIÐ LANGT NEF
Nýr meirihluti í Reykjavík hefur sett á fót stýrihóp til að fara í saumana á aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur að samkrulli OR við fjárfestingarbraskara sem nú róa öllum árum að því að komast yfir almannaeigur í orkugeiranum og nýta þær sér til framdráttar í fjárfestingum á erlendri grundu. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk á málinu vegna innbyrðis óánægju og gagnrýni vegna þessa. Nýr meirihluti hefur nú tekið við til að snúa málinu tilbaka. Hann hefur nú sett á fót stýrihóp til að annast það verkefni.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, gefur lítið fyrir þennan hóp og þar með lýðræðið. Enda þótt ljóst sé að meirihluti sé fyrir því í borgarstjórn Reykjavíkur að rifta beri þeim siðlausu baktjaldasamningum sem gerðir voru í tengslum við og í framhaldi af "sameiningu" Geysis Green Energy og REI, segir forstjórinn að búið sé að skrifa undir samninga og að menn muni halda sínu striki í samrunaferlinu: "Stýrihópur borgarráðs breyti þar engu um."
Hér talar forstjórinn þvert á lýðræðislegan vilja. Það er ekki nóg með að hann gefi með þessum ummælum nýmynduðum meirihluta langt nef. Hann gefur þorra borgarfulltrúa langt nef því þverpólitískur vilji er greinilega fyrir því að taka málið upp frá rótum.
Menn tala mikið um sérþekkingu fjármálamannanna. Þeirra sérþekking er að braksa með peninga. Ávaxta sitt pund. Peningamennirnir og einhverjir úr forstjóragengi REI eru nú komnir til Indónesíu og Filippseyja. Þar er verið að einkavæða orkugeirann. Þar vilja braskararnir nýta "sérþekkingu" sína. Skyldu þeir greina frá því á fundunum að í reynd eru þeir umboðslausir menn? Skyldi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem er með í för hafa á því orð?