Fara í efni

ALÞINGI STUDDI VISSULEGA VOPNAKAUPIN ÞÓRDÍS – EN ÞJÓÐIN VAR Á MÓTI

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, reiddist á kosningafundi á dögunum þegar Gunnar Smári Egilsson, Sósíalistaflokki, sagðist andvígur vopnsendingum Íslendinga til Úkraínu – og að hervæðingin í heiminum, sem stigmögnun stríðsins þar væri að valda, væri orðin alvarleg ógn við heimsfriðinn.

Þarna er ég Gunnari Smára algerlega sammála - og ekki bara ég heldur er meirihluti þjóðarinnar einnig andvígur vopnasendingum Íslendinga til Úkraínu samkvæmt skoðanakönnunum.

Utanríkisráðherrann, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins, brást hinn versti við yfirlýsingum formanns Sósíalistaflokksins og sagði að vopnasendingarnar hefðu notið þverpólitísks stuðnings allra flokka á Alþingi.

Það er þyngra en tárum taki að þetta skuli vera rétt hjá utanríkisráðherranum enda hefur ítrekað verið gagnrýnt hér á þessari heimasíðu að Alþingi skuli hafa leyft sér að ganga jafnfreklega gegn meirihlutavilja þjóðarinnar og raun ber vitni í þessu vígvæðingarbrjálæði.

Meirihluti þjóðarinnar er með öðrum orðum sammála Gunnari Smára og ósammála Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð. Hún ætti þess vegna að beina reiði sinni að þjóðinni sem hefur allt annað að gera með skattfé sitt en að kaupa vopn samkvæmt skipun frá NATÓ.

Brotalömin í þessu máli er Alþingi og ríkisstjórnin.

Það er eitthvað mikið að þegar í ljós kemur að ekkert stjórnmálaafl skuli hafa verið til staðar á Alþingi sem mótmælti hlutdeild Íslands í þessum vígbúnaði og stigmögnum stríðsæsinga.

Nú þyrftu allir frambjóðendur í efstu sætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna að stíga fram og lýsa afstöðu sinni til vopnasendinga til Úkraínu og með hvaða hætti þeir telji að nálgast eigi lyktir á blóðbaðinu þar. Mikilvægt er að allir geri hreint fyrir sínum dyrum fyrir kosningar!

Vilja þeir óbreyttan stuðning Íslands við stefnu NATÓ og þeirra ríkja innan bandalagsins sem gefið hafa grænt ljós á árásir með langdrægum NATÓ flaugum langt inn í Rússland; eru þeir sammála nýlegri (þverpólitískri?) ákvörðun fulltrúa í Norðurlandaráði um að færa ráðið ofan i vasa hergagnaiðnaðarins?

Hér má sjá hluta umræðunnar sem að framan er vísað til:

https://www.youtube.com/watch?v=Rkup8JXrds0

----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.