ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN SAMUR VIÐ SIG
15.10.2008
Merkilegt hve margir í stjórnarmeirihlutanum á Alþingi er umhugað um að fá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að sjúkrabeði íslenska fjármálakerfisins með læknisráð og medesín. Kannski er þetta ekkert undarlegt að stjórnmálamenn sem eru áhugasamir um einkavæðingu vilji fá bevís upp á að stefna þeirra sé samkvæmt ráðleggingum og kröfum þessa sjóðs. Þannig komist þeir betur upp með að hrinda óvinsælli stefnu í framkvæmd.
Vissulega er það fullkomlega skiljanlegt að Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skuli vera áhugasamur um að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hingað til lands sér til fulltingis. Vilhjálmur var á sínum tíma framkvæmdastjóri Verslunarráðsins (forvera Viðskiptaráðs) sem barist hefur fyrir markaðsvæðingu þjóðfélagsins um langt árabil. Því nefni ég Vilhjálm að við ræddum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Kastljósi Sjónvarpsins í gær: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431232/0
Í þættinum lýsti Vilhjálmur fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem afskaplega geðþekku og vænu fólki sem mætti ekkert aumt sjá. Þeir hefðu til dæmis uppgötvað óhóflegan ferðakostnað ráðamanna í fátæku ríki suður í álfum og þetta hefði farið svo fyrir brjóstið á þeim að ákveðið hafi verið að beina líknandi armi sjóðsins þangað. Ekki fór frekari sögum af lækningsmedisínum.
Þegar Vilhjálmi var bent á - af þessu tilefni - að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu aldrei haft neitt að athuga við þotukaup eða annan ferðakostnað íslenska auðmannaaðalsins og meira að segja vegsamað allt einkavædda bruðlið hér á landi í bak og fyrir og ekkert haft annað til málanna að leggja en að óska eftir meiri einkavæðingu og hærri vöxtum - þá svaraði Vilhjálmur því til að nú væru aðstæður allt aðrar og önnur ráðgjöf uppi en ella. Ég væri bara að tala um eitthvað sem gerðist í gamla daga.
Það eru reyndar ekki liðnar margar vikur frá heimsókn síðustu sendinefndar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Tónninn var gamalkunnur: Einkavæðið Íbúðalánasjóð og ekki láta undan kröfum öryrkja!
Hér er slóð á grein þar sem vikið er að síðustu heimsókn sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað til lands: https://www.ogmundur.is/is/greinar/radleggingar-petyu
Hér eru einhver fyrri skrif um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/thridji-heimurinn-og-vid https://www.ogmundur.is/is/greinar/u-beygja-um-utanrikismal
https://www.ogmundur.is/is/greinar/guardian-um-imf-og-oecd-stofnanir-stadnadrar-hugmyndafraedi