Álvinir Valgerðar í "skemmtiferð ásamt öðru"
Auðhringurinn Alcoa er hættur að fara um heiminn í leit að vinum. Eftir að hann kynntist Framsóknarflokknum á Íslandi lætur hann sér nægja að ferðast um Ísland í leit að virkjunarkostum. Heima fyrir, í Bandaríkjunum, lokar Alcoa álverum sínum hverju á fætur öðru eftir að Finnur, Valgerður og Halldór buðu upp á slík kostakjör við kaup á raforku við Kárahnjúka, að öðru eins höfðu menn aldrei kynnst. Frá þeim tímapunkti þegar Norsk Hydro gaf frá sér að reyna rekstur álverksmiðju á Austurlandi og Framsóknarflokkurinn ákvað að gera menn út til að ná í kaupanda að orku frá væntanlegri Kárahnjúkavirkjun hvað sem það kostaði, mátti öllum ljóst vera að Íslendingum hafði verið skipað á bekk með ríkjum sem falbjóða sig erlendu auðmagni á nánast hvaða kjörum sem er. Því miður er það ekki enn runnið upp fyrir almenningi að hverja einustu krónu sem nú fer í virkjunarframkvæmdir á Austurlandi taka Íslendingar að láni og eiga eftir að greiða með tilheyrandi fjármagnskostnaði.
Í Morgunblaðinu í gær birtust uggvænlegar fréttir. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, ferðast nú um landið með fulltrúum auðhringa sem ásælast ódýra orku. Fram kemur í blaðinu, að í síðustu viku hafi hún farið um Norðurland með fulltrúum Alcoa, sem "hafi verið skemmtiferð, ásamt öðru".
Það er ekki eingöngu Alcoa sem rennir hýru auga til íslenskra orkulinda. Aðrir auðhringir
Í frétt Morgunblaðsins segir ennfremur: "Valgerður vill þó ekki greina frá því hvaða fyrirtæki um sé að ræða en segir að fyrirspurnirnar berist jafnt frá fyrirtækjum sem Landsvirkjun hafi áður átt viðskipti og samskipti við sem og fyrirtækjum sem áður hafi ekki lýst yfir áhuga á framkvæmdum á Íslandi. Áhuginn beinist fyrst og fremst að Norðurlandi þó að menn hafi einnig Reykjanesið í huga."
Hvers vegna er ástæða til að vekja á þessu athygli? Vegna þess að framsóknarmenn hafa sýnt í verki að þeim er ekki treystandi sem hagsmunagæslumönnum fyrir Íslendinga hvorki þegar litið er til náttúruverndarsjónarmiða eða fjármálahliðar samningagerðar. Við Kárahnjúka var fyrst tekin ákvörðun um að samið yrði. Síðan var sest að samningaborði. Pukur og baktjaldamakk einkenndi allt ferlið. Smám saman hefur síðan verið að koma í ljós á hvern hátt Framsókn samdi af sér – fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.
Þegar ráðherrar Framsóknarflokksins leggjast nú að nýju í "skemmtiferðir, ásamt öðru" með fulltrúum álrisanna, undir nákvæmlega sömu formerkjum og fyrr, er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur.