Fara í efni

ÁLYKTUN ÖRYRKJA OG NÝJA SÉRRÉTTINDAÚTGÁFAN


Tvennt markvert gerðist í dag. Annað var að Öryrkjabandalag Íslands sendi frá sér ályktun með þungum áfellisdómi yfir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Síðan var hitt að þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde kynntu nýja sérréttindaútgáfu á lífeyriskjörum ráðherra, þingmanna og „æðstu embættismanna" sem svo eru oft nefndir. Annars vegar hefur ríkisstjórnin ákveðið að skerða lögbundnar hækkanir til aldraðra og öryrkja frá næstu áramótum að telja. Á hinn bóginn hefur hún ákveðið að láta undan þrýstingi um afslátt á eigin sérréttindum. En viti menn, það á ekki að gilda frá áramótum heldur frá og með 1. júlí næsta sumar! Öryrkjarnir skulu skertir strax og af fullum þunga, en Geir og Ingibjörg skerða eigin sérréttindi aðeins að hluta og þá ekki fyrr en um mitt næsta ár.

Í þessum ráðstöfunum birtist okkur sannsögull spegill á ríkisstjórnina. Við skulum gefa Öryrkjabandalagi Íslands orðið:

„Með boðaðri skerðingu á kjörum lífeyrisþega er ríkisstjórn Íslands að ganga gegn lögum þeim sem sérstaklega voru sett lífeyrisþegum til verndar við þær aðstæður sem nú hafa skapast í þjóðfélaginu.
Í stað þess að virða þessi lög og forgangsraða í anda velferðarþjóðfélags er nú fyrirhugað að bæta ekki verðbætur að fullu. Þetta á við um meira en 30 þúsund lífeyrisþega. Til þess að bæta verðtryggingu að fullu þarf að bæta við 2,5 milljörðum eftir skatta (nettó).
Öryrkjabjandalag Íslands mótmælir þessari aðför harðlega og skorar á ríkisstjórnina að hverfa að fullu og öllu frá henni."

Þarf að segja nokkuð meira?