ÁNÆGJULEG SAMSTAÐA UM LÖGGÆSLUNA!
Birtist í Garðapóstinum og í Kópavogspóstinum 21.03.13.
Fyrir síðustu áramót samþykkti Alþingi að skipuð yrði þverpólitísk nefnd til að fjalla um löggæsluna í landinu og á hvað bæri að leggja áherslu á komandi árum. Allir stjórnmálaflokkar á Alþingi komu að þessari vinnu. Nefndin hefur nú skilað af sér skýrslu sem ég hef kynnt í ríkisstjórn og lagt fram til kynningar á Alþingi.
Lögreglan hefur þurft að sæta miklum niðurskurði á undangengnum árum eins og öll opinber starfsemi. Nú vonast menn hins vegar til þess að hin efnahagslega sól fari hækkandi á lofti og að þá verði hægt að efla að nýju ýmsa þjónustu sem við höfum verið nauðbeygð til að draga úr sökum hrunsins.
Auðvitað verður það komið undir stöðu ríkissjóðs á komandi árum hve hratt verður unnt að fara í uppbyggingu. Því gera sér flestir grein fyrir. En dýrmætur er sameiginlegur skilningur og sameiginlegur ásetningur fulltrúa allra flokka að gera það að forgangsverkefni að bæta löggæsluna í landinu.
Áhersla nefndarinnar er sú að efla beri almenna löggæslu en sérstaklega skuli horft til hinna dreifðu byggða þar sem fáir lögreglumenn eru að störfum á stórum svæðum. Þá skuli búnaður lögreglunar bættur og menntun og þjálfun að sama skapi.
Auðvitað gildir hið sama um aðra innviði samfélagsins, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þessa þætti verður að efla á nýjan leik eftir því sem fjárhagslegir burðir okkar batna. En gildi þessarar samstöðuyfirlýsingar gagnvart lögreglunni er hins vegar ekki aðeins af þeim toga að til hennar verði vitnað við komandi fjárlagagerð heldur er þarna fram komin traustsyfirlýsing gagnvart lögreglunni og virðingarvottur gagnvart erfiðu starfi iðulega við erfiðar aðstæður.