Andanum lyft á síðum Weekendavisen
Ef allir létu berast með straumnum, spyrðu aldrei gagnrýninna spurninga og andæfðu ekki þegar þeim þætti stefna í óefni, er hætt við að við næðum aldrei því stigi að geta kallað samfélag okkar siðað menningarsamfélag. Það getur krafist hugrekkis að gagnrýna hið hefðbundna. Það á svo sannarlega við um Hirsi Ali, 35 ára konu frá Sómalíu sem nú á sæti á hollenska þinginu. Það á einnig við um Karsten Möller stjórnanda danska herskólans. Þetta eru ólíkir einstaklingar en tilviljun réði því að viðtal er við þau bæði í danska blaðinu Weekendavisen um síðustu mánaðamót (30. júlí – 5. ágúst) og önnur tilviljum réð því að eintak af blaðinu barst mér í hendur. Mér þótti þessi viðtöl gefa bjartsýni byr undir báða vængi. Það er alltaf gaman að heyra til fólks sem lyftir andanum – ekki síst þegar einstaklingarnir koma úr óvæntri átt.
Til Hollands kom Hirsi Ali árið 1992 frá Kenya en þangað hafði fjölskyldan eða hluti hennar flúið þegar Hirsi Ali var 11 ára. Móðir hennar er enn í Sómalíu en faðir hennar hafði átt erfitt uppdráttar sem stjórnarandstæðingur í Sómalíu. Svo er að skilja að fjölskyldan hafi verið strangtrúaðir múslímar og auk þess farið að innlendum siðvenjum í Sómalíu í hvívetna. Þegar Hirsi Ali kom til Kenya hafði hún verið umskorin og hefur hún sagt frá því að fyrst þá hafi runnið upp fyrir sér að þetta væri ekki nokkuð sem allar konur yrðu að þola. Smám saman gerist Hirsi Ali síðan gagnrýnni á þá veröld sem hún hrærðist í og þegar til Hollands var komið fór hún að blanda sér í þjóðfélagsumræðuna af krafti. Mjög beindi hún spjótum sínum að harðlínu múhameðstrúarmönnum og gagnrýndi jafnframt hollensk yfirvöld fyrir misskilið umburðarlyndi gagnvart þeim. Það væri til dæmis rangt að veita strangtrúuðum múhameðstrúarmönnum heimild til að reka eigin skóla, það yki á aðgreiningu og æli á hatri og fordómum. Fljótlega fór hin galvaska baráttukona að fá hótunarbréf og sendiherrar Saudi-Arabíu, Pakistans, Malasíu og Súdans gengu á fund formanns Sósíaldemókrataflokksins hollenska (PVDA) og óskuðu eftir því Hirsi Ali yrði vísað úr flokknum. Hann svaraði þeim kurteislega og sagði að hún talaði á eigin ábyrgð og menn yrðu að virða tjáningarfrelsið. Þessi viðbrögð líkaði hinni ungi baráttukonu illa, sagði sig úr flokknum og gekk til liðs við heldur hægri sinnaðri flokk (VVD) en sem hún taldi standa betur vörð um hugsjónir sínar. Gagnýni Hirsi Ali á sinn fyrrum formann var sú að honum hefði borið að taka upp vörn fyrir sína hönd. Hún segist þreytt á linkulegri afstöðu margra Evrópumanna til mannréttindabrota í hinum múslímska heimi. Múhameð, segir hún, reyndi að fá einnar konu sinnar, Aishu, þegar hún var aðeins sex ára. Vegna andstöðu föður barnsins gat ekki af ráðahagnum orðið fyrr en stúlkan var 9 ára! Hirsi Ali minnir á að slíkt framferði gagnvart 9 ára barni kallist nú á dögum kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Upp á þessa kvennasýn strangtrúaðra múhameðstrúarmanna skrifa Evrópumenn með þögn sinni segir Hirsi Ali í viðtalinu við Önnu Libak í Weekendavisen.
Þetta eru umhugsunarverð orð. Það er ekki alltaf auðvelt að feta einstigið á milli þess að vilja sýna mismunandi menningarheimum virðingu og umburðarlyndi og svo hins að skrifa ekki upp á mannréttindabrot og kúgun. Á mælikvarða mannkynssögunnar er ekki langt síðan Evrópumenn og Bandaríkjamenn stunduðu þrælahald og enn styttra er síðan konur höfðu ekki kosningarétt. Í heimi trúarbragðanna höfum við frá miðöldum dæmi um hryllilegar pyntingar og ofsóknir af hálfu kirkjunnar. Auðvitað bar öllum mönnum – og skiptir þar menningarlegur bakgrunnur þeirra engu máli, réttur og skylda til að gagnrýna slíkt framferði.
Við bjóðum Barbaríinu heim
Þetta er íslenskuð fyrirsögnin á viðtali sem blaðamaðurinn Hans Mortensen tók við generalmajor Karsten Möller stjórnanda danska herskólans ( Forsvarsakademien) og birtist einnig í Weekendavisen. Á dönsku hét greinin: Vi risikerer barbariet. Fyrirsögnin er lunkin því hún vísar í tvíræða merkingu orðsins barbari, sem annars vegar merkir villimennska og hins vegar vísar það í hrottaskap múslíma gagnvart Evrópumönnum fyrr á öldum. Lestur greinarinnar af minni hálfu hófst því fórdómahlaðinn: Án efa enn einn militaristinn að réttlæta hernaðinn gegn Afganistan og Írak, nú væri lag að stöðva barbarana! Annað kom á daginn. Karsten Möller hóf mál sitt á því að vitna í Albert Camus, franska rithöfundinn og heimspekinginn: Albert Camus hefur lýst því best. Annar rithöfundur hafði þá skrifað að hefðu Frakkar ekki beitt pyntingum í Alsír, hefðu Frakkar oftar lotið í lægra haldi í átökum og hryðjuverk orðið enn meiri. Þessu svaraði Camus á þann veg að vel gæti verið að að hægt væri að koma í veg fyrir 50 hryðjuverk með því að pynta 30 fanga, en með hverjum fanga sem væri látinn sæta pyntingum væru búnir til 100 nýir hryðjuverkamenn. Karsten Möller sagði einnfremur, að auk þess sem pyntingar gerðu þeim sem þyrftu að þola þær, afsiðuðu þær gerandann og þá sem fyrirskipuðu þessar aðfarir eða sæju í gegnum fingur sér þegar þær ættu sér stað. Þetta væri eyðileggjandi, sagði Camus og hér er ég honum hjartanlega sammála, segir Karsten Möller í upphafsorðum viðtalsins í Weekendavisen.
Í viðtalinu nefnir Karsten Möller Alsír, Víetnam, Írak og Afganistan þar sem fangar hafi sætt pyntingum og meðhöndlun sem brotið hafi gegn Genfarsáttmálanum. Þá segir hann að þarna megi bæta við framferði Rússa í Afganistan og Tjetjeníu. Hann segir að hættan á mannréttindabrotum af þessu tagi í stríði sé meiri en þegar herir gráir fyrir járnum standa andspænis hvor öðrum. Í slíkum hefðbundnum hernaði þurfi enginn að velkjast í vafa um hvernig skilgreina eigi stríðsfanga. Í óhefðbundnum hernaði sé andspyrnan af öðrum toga. Annars vegar sé aðili með hernaðarlega yfirburði, hins vegar veikari aðili en hafi það þó umfram hinn að geta betur leynst og villt á sér heimildir.
Karsten Möller segir að sér finnist áhyggjuefni að þegar Danir hafi verið spurðir af handahófi hvort þeir telji pyntingar réttlætanlegar undir einhverjum kringumstæðum hafi of margir svarað játandi. Þetta hljóti að vera vegna vanþekkingar segir Karsten, það geti ekki verið að fólk geri sér grein fyrir því hvað pyntingar geri fórnarlambinu og böðlinum. Vissulega, bætir hann við, verði menn að hafa í huga hvað gerist innra með hermönnum sem sjái félaga sína sprengda í tætlur. En einmitt vegna slíkra tilfinninga þurfi menn að vera á verði. Æðstu stjórnendur þurfa að hafa styrka stjórn, ella fari allt úr böndunum. Það kenni reynslan okkur. Stríðið gegn hryðjuverkamönnum verður ekki unnið á skömmum tíma heldur löngum og allir okkar liðsmenn verða að hafa í mænunni, i rygmarven, þ.e. sem ósjálfráð viðbrögð, hverjar grunnreglurnar eru. Á þennan veg mælir Karsten Möller.
Sannast sagna held ég að þeir séu ekki á hverju strái innan herja heimsins sem hugsa á þennan veg. Þessi afstaða og aðeins þessi afstaða getur réttlætt að til sé her. Síðustu daga hefur komið fram að ekki hafa allir nemendur Karstens Mölllers farið að ráðleggingum meistara síns því fram hafa komið ásakanir um að danskir hermenn hafi beitt pyntingum í Írak. Eftir einum þeirra var haft að þessar ásakanir væru allar á misskilningi byggðar, menn þekktu einfaldlega ekki til starfsaðferða í hernum! Þetta er skýring, sem mér býður í grun, að generalmajor Karsten Möller hefði ekki keypt. Hann hefði sagt að með þessari nálgun risikerede vi barbariet, við ættum á hættu að gerast villimenn.