Fara í efni

ANDRÉS BJÖRNSSON: UM HORNSTEINA LÝÐRÆÐIS

Andres Bjornsson 2
Andres Bjornsson 2
Á páskadagsmorgun var endurtekinn á Rás 1 í Ríkisútvarpinu þáttur Gunnars Stefánssonar um Andrés Björnsson, fyrrum útvarpsstjóra og menningarmann. Þátturinn, sem fyrst var fluttur á páskadagsmorgun árið 1999,  var vel gerður eins og annað sem frá Gunnari Stefánssyni kemur. Hér að neðan er að finna slóð inn á þáttinn en því miður mun aðeins hægt að nálgast hann í tiltölulega skamman tíma af ástæðum sem mér eru ókunnar, en oft hef ég beint því til Ríkisútvarpsins að gera þá breytingu, að hlustendur fái greiðari og varanlegri leið að fjársjóðum þess.
Í þættinum um Andrés Björnsson er að finna dæmi um ljóðaupplestur hans en Andrés bjó yfir mjög óvenjulegri dýpt og næmni. Þar voru einnig ræðubrot, á meðal annars úr áramótahugvekjum Andrésar. Undir lok þáttarins var kafli úr áramótahugvekju Andrésar, frá árslokum 1984 en þá lét hann af störfum sem útvarpsstjóri. Þessi hugvekja ber heitið Að leiðarlokum í bókinni Töluð orð, þar sem allar áramótahugleiðingar Andrésar voru birtar.
Hér að neðan er hluti úr þessu ræðubroti þar sem Andrés Björnsson fjallar um menningararfinn, söguna og tunguna og annað sem við eigum saman sem þjóð. Þessi verðmæti verðum við að fara með af mikilli gát, segir Andrés, annars er hætt við að við týnum hvert öðru og  í framhaldinu frelsi okkar „í hörðum heimi" :

"...En sameign þjóðar er margt fleira en það góss sem mölur og ryð grandar og raunar langt viðkvæmara og verðmætara sé til lengri tíma litið. Þá sameign verður að fara með af mikilli gát...Sameign er tákn samstöðu, sameiningar og samábyrgðar allt frá heimili og fjölskyldu til ríkisheildar. Þetta eru hornsteinar þess lýðræðis sem Íslendingar telja sér svo mjög til gildis þó að þar kenni því miður stundum mótsagna í orði og æði.
Saga, tunga, trú og siðalögmáleru verðmæti sem allir þegnar þjóðarinnar eiga hlut í. Við þurfum ekki að líta lengi í kring um okkur til að sjá hvað gerist ef einhver þessara þátta rofnar. Dæmi þessa blasa alls staðar við, jafnvel hjá grannþjóðum sem af þessum sökum eiga við margs konar hörmungar að stríða. Hér eru vítin sannarlega til varnaðar.
Þau atriði sem nefnd hafa verið veita okkur þegnrétt meðal þjóða. Þau hafa veitt okkur það frelsi sem við njótum í hörðum heimi. Gætum þeirra af árvekni, - ef við gleymum því verðum við hvorki frjáls né óháð heldur gleymd og týnd hvert öðru og allri veröldinni... "
http://dagskra.ruv.is/ras1/4574990/2011/04/24/