Fara í efni

ÁRAMÓTAHUGLEIÐINGAR HALLDÓRS OG HELGU

Í byrjun vikunnar birtut í Morgunblaðinu ýmsar áramótahugleiðingar, þar á meðal þeirra Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, og Helgu Hansdóttur yfirlæknis í almennum öldrunarlækningum LSH, Landakoti.

Um Halldór, loforð og efndir

Bæði viku þau að stöðu aldraðra. Halldór sagði: “Við megum aldrei gleyma því að aldraðir hafa átt stóran þátt í að skapa þá velsæld sem nú ríkir og þeir eiga að geta notið ævikvöldsins með reisn. Helst sem lengst á eigin heimili og meðan heilsan leyfir úti í atvinnulífinu þar sem reynsla og viska þeirra getur komið að góðum notum. Ég reifaði þessi sjónarmið á fundi nokkurra ráðherra með Landssambandi eldri borgara sem haldinn var nú rétt fyrir jól og lagði til að fulltrúar stjórnvalda og eldri borgara héldu áfram nánu samráði og samstarfi.”

Allir þeir sem muna feril þeirra nefnda sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa sett á laggirnar um kjör aldraðra allar götur frá því þessir flokkar hófu samstarf vorið 1995 hljóta að hugsa sitt. Þessar nefndir hafa hreinlega gufað upp og hvað varðar framhaldið á “nánu samráði og samstarfi” ríkisstjórnarinnar við Landssamband eldri borgara er skemmst frá því að segja að það hefur aldrei komið fyrir sjónir sem sérlega náið. Þvert á móti hefur verið deilt um frumforsendur kjaraþróunar allt fram á þennan dag og margoft hafa samtök aldraðra lýst yfir megnri óánægju með aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum aldraðra.

Það á ekki að þurfa að velja á milli krabbameinslyfja og aðhlynningar aldraðra

Helga Hansdóttir, læknir í öldrunarlækningum, skrifar mjög umhugsunarverða grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Áramótahugleiðing um þjónustu heilbrigðiskerfisins við aldraða. Hún segir að biðlistar á öldrunarlækningadeildir valdi því að aldrað fólk hafni iðulega inni á bráðadeildum sjúkrahúsanna, nokkuð sem eigi við um aðra hópa einnig, fatlaða og geðsjúka. Hún hvetur til að kalla hlutina réttum nöfnum: “Ef einhver er svo veikburða þrátt fyrir bestu endurhæfingu að hann getur ekki búið heima þá á hann rétt á hjúkrunarheimili. Fjármagn til hjúkrunarheimilisþjónustu á að koma frá heilbrigðisráðuneytinu en ekki af þeim fjármunum sem ætlaðir eru til spítalarekstrar. Þá þarf sjúkrahússtjórnin ekki að velja milli þess t.d. að kaupa lyf til krabbameinslækninga eða veita öldruðum heilabiluðum einstaklingum sem eru fastir á sjúkrahúsinu, dægradvöl við hæfi. Ef einhver er einmana og hræddur vegna fötlunar sinnar þá þarf hann návist annarra, öryggi og nauðsynleg hjálpartæki. Hann þarf fyrst og fremst félagsþjónustu. Fjármagn til félagsþjónustu ætti að koma frá félagsmálaráðuneyti og byggjast á rétti einstaklingsins á að fá slíka þjónustu, fremur en á langri biðröð...

Gróði bankanna og heilbrigðiskerfið

Helga Hansdóttir hvetur til skýrrar verkaskiptingar og vekur til umhugsunar um samhengið á milli þess hve naumt hefur verið skammtað til þeirra þjónustusviða sem hér voru nefnd og þrengslanna og aðstöðuleysis sem myndast á sjúkrahúsum landsins þegar fólk er tekið þangað inn vegna þess að hin æskilegu úrræði eru ekki til staðar. Þegar í ofanálag er horft til niðurskurðar í heilbrigðisþjónustunni sé ekki að sökum að spyrja: “Ég tel að á Íslandi höfum við afburða þekkingu í heilbrigðiskerfinu. Menning okkar er mannúðleg. Við erum með ríkustu þjóðum heims. En samt er neyðarástand á spítalanum vegna sparnaðar. Börn með geðraskanir þurfa að bíða í mörg ár eftir greiningu, mögulega meira en helming ævinnar. Það sama gildir fyrir aldraða. Bið eftir hjúkrunarheimili í eitt ár við óviðunandi aðstæður er mögulega helmingur af þeirri ævi sem eftir er. Svo heyrir maður um gróða bankanna. Ég segi eins og Búi Árland, þingmaður í Atómstöðinni: "ég gubba í sex metra boga".

Og yfirlæknirinn í öldrunarlækningum ákallar þjóðina “að heimta milljarðinn sem sparaður var til baka í þjónustu þeirra sem eru sjúkir. Njótum þess að eiga mannúð, þekkingu og peninga. Sinnum vel okkar yndislegu börnum, okkar hjartkæru ömmum og öfum, fötluðum systrum okkar og geðsjúkum bræðrum, öllum okkar minnstu bræðrum.”

Undir þetta og annað sem er að finna í áramótahugleiðingum Helgu Hansdóttur skal tekið. Orð hennar eru í tíma töluð.