ÁRAMÓTAÞANKAR UM TÍMANN SEM LÍÐUR OG ÞANN SEM LIFIR
Ég minnist þess að sem ungum dreng þótti mér áramótin í bland vera þrungin trega. Nú árið er liðið í aldanna skaut, var sungið og barnið sat eftir með þá hugsun að hið liðna væri okkur á einhvern hátt gengið úr greipum, glatað - kæmi aldrei til baka. Þessu fylgdi óútskýrð eftirsjá. En um leið var nýr forvitnilegur tími að hefjast. Áramót voru því í senn tími eftirsjár og eftirvæntingar.
KK sagði einhverju sinni í áramótaspjalli um nýliðið ár, að það hefði verið gott ár. Verst hve illa hefði verið talað um það!
Eftir því sem árin líða finnst mér það verða sífellt meira virði að staldra við þær stundir sem á einhvern hátt voru gefandi; þær stundir sem tilefni er til að tala vel um.
Í eftirminnilegri athöfn í Mosfellskirkju í Grímsnesi síðastliðið haust þar sem séra Þórir Stephensen, fyrrum dómkirkjuprestur, sté í predikunarstólinn sem afi hans, séra Stefán Stephensen, hafði staðið í rétt rúmri rúmri öld áður, minnti hann á að tíminn væri eins og tilveran öll, mælanleg á mismunandi stikur. Þannig væri tíminn sem liði en einnig hinn sem lifði.
Frásögn um messu séra Þóris í Mosfelli hér á síðunni, varð mínum góða vini, Pétri Gunnarssyni, rithöfundi, tilefni til að senda mér bréfkorn þar sem hann tók undir með mér að orð séra Þóris um tímann sem liði og tímann sem lifði væru merkileg og umhugsunarverð og kvað Pétur þau minna sig á orð bandaríska rithöfundarins Williams Faulkners: "The past is not dead, it´s not even past."
Þetta er rétt. Hið liðna þarf ekki að vera okkur glatað þótt það hverfi í aldanna skaut, hið liðna getur lifað með okkur ef við teljum það þess virði að láta það lifa. Og að sjálfsögðu eigum við að varðveita minninguna um það sem vel hefur verið gert. Sú hugsun hefur vissulega jafnan verið sterk í íslenskri þjóðarvitund. "Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt," kvað Einar Benediktsson í Aldamótaljóði sínu.
Tilefni Péturs Gunnarssonar til fyrrnefndra bréfaskrifta var tvíþætt. Í fyrsta lagi að ræða um afstæði tímans og síðan hitt að nefna að myndin af Mosfellskirkju, sem fylgdi skrifum mínum, hefði minnt sig á forföður sinn, kirkjusmiðinn sem smíðað hefði þá kirkju og fleiri áþekkar í útliti sem risu um miðbik 19. aldarinnar á Suðurlandi: „Mig langar til að bæta við smá fróðleik, nefnilega að það var langalangafi minn sem smíðaði þessa kirkju, Bjarni Jónsson kirkjusmiður, að mig minnir um miðja 19. öld."
Pétur nefndi að þessi forfaðir hans hefði einnig reist kirkjuna að Búrfelli í Grímsnesi, en hún er mjög áþekk þeirri á Mosfelli. Þetta eru einhverjar elstu kirkjur í Árnessýslu og þótt víðar væri leitað og minnir á eins og Pétur Gunnarsson nefnir í bréfi sínu „að vel skuli vanda það sem lengi á að standa."
Sögulegur fróðleikur gefur tilverunni lit. Við stöndum í þakkarskuld við sagnfræðinga okkar og safnara sögulegs fróðleiks sem halda til haga i samtímanum því sem liðið er.
Eggert Þór Bernharðssson, sagnfræðingur, hefur verið ötull frásagnarmaður um fortíð okkar á allt of stuttri strafsævi sinni en hann varð bráðkvaddur sem kunnugt er að morgni gamlársdags. Síðasta ritverk hans var bók um búskap í Reykjavík og myndun borgar en hún ber heitið, Sveitin í sálinni. Að Eggerti Þór er mikill missir, að sjálfsögðu fjölskyldu og vinum, en einnig íslenskri sagnfræði og okkur öllum sem teljum mikilvægt að halda til haga fróðleik og minningum frá liðinni tíð.
Sjá ívitnaðan pistil: https://www.ogmundur.is/is/greinar/stund-i-mosfellskirkju