ARCTIC CIRCLE, ALKIRKJURÁÐIÐ, ÞINGVALLAURRIÐINN OG DRUKKNIR ÞRESTIR - EÐA HVAÐ?
Viðburðaríkur dagur er senn á enda. Flest sem á daginn dreif hjá mér tengist Arctic Circle, hinni árlegu ráðstefnu Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta Íslands í Hörpunni í Reykjavík. Viðfangsefnið á henni er nú sem á fyrri ráðstefnum, umhverfismál og þá sérstaklega loftlagsbreytingarnar.
Ég var beðinn um að stýra einni málstofunni og er hún samstarfsverkefni Arctic Circle og Alkirkjuráðsins lútherska, um trú siðferði og umhverfi. Sú málstofa verður í Þjóðmenningarhúsinu á morgun, laugardag, klukkan 16 - 17:30 og er yfirskriftin, Climate Justice - The Moral Imperative to Act.
Sat ég umræðuþing um þetta málefni í Digraneskirkju í gær, fimmtudag, og þótti mér mikið til koma um opinn hug kirkjunnar manna og vilja til aðgerða. Voru nefnd fjölmörg dæmi um aðkomu trúarsafnaða til verndar náttúrunni gegn yfirgangi fjármagnsins. Annað sem vakti athygli mína sérstaklega voru frásagnir fulltrúa þjóðflokka sem bjuggu í nánu sambýli við náttúruna, þá sérstaklega Sama en einnig íbúa Fídji eyja í Kyrrahafinu. Þetta fólk tengist mjög greinilega náttúrunni sterkari böndum en við gerum sem spígsporum um malbikið og afstaðan til náttúrunnar að sama skapi önnur. Sá sem allt á undir náttúruöflunum ber fyrir þeim meiri virðingu en hinir sem sjá ekki tenginguna. Viðfangsefni þessa ráðstefnuhalds er hins vegar að opna augu okkar allra fyrir mikilvægi þess að lifa í sátt við móður jörð.
Í morgun var haldið til Þingvalla og undirrituðu þátttakendur fundarins í Digraneskirkju þar yfirlýsingu - eins konar ákall - um aðgerðir í umhverfismálum. Ályktunin var samþykkt á Lögbergi við hátíðlega athöfn, kvenraddir Háskólakórsins sungu Heyr himnasmiður, Kolbeins Tumsonar við lag Þorkels Sigurbjörnssonar og ljóð Hallgríms Péturssonar, Gefðu að móðurmálið mitt ... Allir viðstaddir skynjuðu hinar sögulegu víddir þessarar stundar.
Alltaf þykir mér stórkostlegt að koma til Þingvalla. Sérlega magnað var það þó í morgun þegar saman fór einstaklega fagurt veður og velvilji gestkomenda og gleði þeirra yfir að heimsækja þennan stórbrotna og sögufræga stað. Allt rann þetta saman í eitt. Náttúran minnti ekki aðeins á sig í fagurri fjallasýn og óviðjafnalegum haustlitum því lífríki Þingvallavatns birtist okkur einnig með eftirminnilegum hætti. Urriðinn hrygnir nefnilega nú um stundir og mátti sjá myndarlega urriða í tugatali undir brúnum á völlunum. Augljóst var að þeim leið ekki illa í silfurtæru vatninu.
Að lokinni þessari athöfn sem leikir og lærðir sóttu, kirkjunnar menn og aðrir vinir umhverfisins - séra Gunnþór Ingason (einn helsta frumkvöðulinn að þessu framtaki) og Ómar Ragnarsson (vin náttúrunnar númer eitt), nefni ég þar sérstaklega til sögunnar - var haldið til Reykjavíkur þar sem Ólafur Ragnar lék á strengi sinnar hörpu og á hann lof skilið fyrir framtak sitt sem varla verður kallað annað en afreksverk.
Og sem ég skrifa þessar línur heima hjá mér á Grímshaganum syngja úti fyrir þrestir hástöfum. Þeir fara nú víða um í stórum flokkum og eru kátir mjög eftir miklar berjaveislur sínar. Getur verið að haustberin séu áfeng og þetta drykkjuvísur? Eða er þetta ef til vill einskær gleðisöngur, allsgáð hamingja yfir því að vera til?