Fara í efni

ÁRNA STEINARS MINNST

Árni Steinar Jóhannsson
Árni Steinar Jóhannsson

Í byrjun þessa mánaðar lést Árni Steinar Jóhannsson, fyrrum alþingismaður og góður vinur eftir erfið veikindi. Útför hans fór fram í kyrrþey. Margir sakna góðs vinar og minnast hans í minningarorðum.  Ég er í þeim hópi og birtust eftirfarandi minningarorð mín í Morgunblaðinu 12. nóvember:

Ef ég ætti að lýsa Árna Steinari Jóhannssyni með einu orði myndi ég velja lýsingarorðið skemmtilegur.  Árni Steinar var með allra skemmtilegustu mönnum sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Frásagnargáfu hans var viðbrugðið.  Venjulegir og að jafnaði heldur óspennandi  atburðir, fundir og ferðalög, urðu að litríkum og stórskemmtilegum ævintýrum í frásögn Árna Steinars. Reyndar varð allt skemmtilegt í hans návist en ekki versnaði það í vel kryddaðri frásögn að hætti sagnameistarans.
Árni Steinar skar sig úr hópnum enda ekki gefinn fyrir að fara troðnar slóðir. Hann stendur mér fyrir hugskotssjónum  á skjannahvítri skyrtu og með bindi, svellfínn  á frakkanum og gljáfægðum skóm,  þegar við hin töldum okkur vera að klæðast eftir veðri og aðstæðum í vindúlpum og gönguklossum. Einhvern veginn kom það þó þannig út að Árni Steinar væri sá eini sem kynni að klæða sig, við hin hálf afkáraleg fyrir vikið!          
Árna Steinari kynntist ég fyrst í gegnum pólitíkina. Við buðum okkur báðir fram undir merkjum Alþýðubandalags og óháðra í þingkosningunum árið 1995.
Á þessum tíma var Árni Steinar ekki fremur en ég  reiðubúinn að ganga inn í Alþýðubandalagið, enda enn forystumaður Þjóðarflokksins. Í kosningunum 1991 hafði munað fáeinum atkvæðum að þessi skeleggi formaður þess flokks hlyti kosningu til þings í Norðausturkjördæmi.
Við vorum ekki einir um að koma inn í kosningabaráttuna vorið 1995 með þessum hætti. Það átti til dæmis við um þriðjunginn af framboðslista Alþýðubandalags og óháðra í Reykjavík.
Í uppstokkuninni miklu í aðdraganda þingkosninganna 1999 þegar Vinstrihreyfingin grænt framboð og Samfylkingin urðu til, vorum við Árni Steinar sestir saman undir árar á báti VG. Báðir vorum við kjörnir á þing í þessum kosningum og urðu samskipti okkar nú miklu meiri. Áður hafði tekist með okkur góð vinátta og bar þar aldrei skugga á.
Árni Steinar Jóhannsson var ekki aðeins skemmtilegur maður og vel máli farinn. Hann var skarpgreindur og glöggskyggn á stefnur og strauma og var jafnan gefandi að leita til hans um mat á aðstæðum eða bara til að spjalla. Nú vildi ég að þær spjallstundir hefðu orðið fleiri.
Það er mikil eftirsjá að Árna Steinari Jóhannssyni. Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur.