Fara í efni

ASBJÖRN WAHL HEILSAR NÝJUM DEGI


Sat allan daginn á málstofu - 300 manna málstofu – til heiðurs Asbjörn Wahl, einum ötulasta baráttumanni fyrir velferðarsamfélaginu og þá jafnframt gegn einkavæðingu innviðanna á undanförnum áratugum. Yfirskrift ráðstefnunnar var, Í kreppu og baráttu í ótryggum heimi, Kriser og kamp i en utrygg verden, A world of crises – a world of struggles. 
http://www.velferdsstaten.no/Forsiden/?article_id=146748.

Asbjörn hefur starfað fyrir verkalýðshreyfinguna bæði á aþjóðavettvangi og síðan undanfarna tvo áratugi  í Noregi fyrir stofnun sem kallast For velferdsstaten. Sú stofnun hefur verið fjármögnuð af Fagforbundet sem myndi helst líkjast Eflingu á Íslandi.

Mette Nord, formaður Fagforbundet opnaði ráðstefnuna í morgun og þakkaði Ásbirni fyrir framlag sitt en hann er kominn á aldur eins og það heitir, en það þýðir að hann hættir að fá borgað fyrir vinnu sína. Það segi ég vitandi að þessi maður mun aldrei hætta að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og baráttunni gegn kapítalismanum og fyrir betra samfélagi. Ásbjörn er því að heilsa nýjum degi.

Ræðumenn á ráðstefnunni í dag komu víða að, fluttu erindi hvert öðru betra, en sjálfur talaði ég til Ásbjörns í hófi síðdegis og þakkaði honum fyrir framlag hans sem væri ómetanlegt.