Fara í efni

ÁTAKS ER ÞÖRF Í HÚSNÆÐISMÁLUM

Birtist í Fréttablaðinu 26.05.06.
Greinin er skrifuð í félagi við Þorleif Gunnlaugssn, 3. mann á lista VG í Reykjavík.
Sveitarstjórnarkosningar nálgast. Stjórnmálaflokkarnir kynna áherslur sínar í aðskiljanlegum málaflokkum, skipulags- og umhverfismálum, málefnum ungra og aldinna. Fjallað er um umfang og fyrirkomulag samfélagsþjónustunnar, hvort hún eigi að vera félagslega rekin eða á vegum einkaaðila.
Í öllum þessum málaflokkum er afstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs skýr. Það er hún líka í húsnæðismálum tekjulítils fólks. Á þessu sviði teljum við vera þörf á stórátaki. Staðreyndin er sú að tekjulítið fólk í Reykjavík berst í bökkum á húsnæðismarkaði. Kaup á húsnæði er ekki lengur mögulegur kostur eftir að félagslega húsnæðiskerfið var eyðilagt með nýrri húsnæðislöggjöf árið 1999 þvert á vilja verkalýðshreyfingar og félagslegra stjórnmálaafla. Nú er tekist á um leifarnar af þessu kerfi því Sjálfstæðisflokkurinn vill Íbúðalánasjóð feigan og flest bendir til þess að Framsóknarflokkurinn sé að leka niður í vörn sinni fyrir sjóðinn þrátt fyrir loforð og heitstrengingar um varðstöðu um hann.
Hvað er til ráða? Húsaleiga er ekki í nokkru samræmi við greiðslugetu tekjulítils fólks. Því fer fjarri að framboð á íbúðum á vegum Félagsíbúða sé nægjanlegt auk þess sem leiguverð þeirra íbúða hefur farið hækkandi í samræmi við þá hugsun að stuðningur skuli ekki koma í gegnum leiguna sem slíka, heldur húsaleigubætur. Að okkar mati þarf stuðningurinn að vera blanda af þessu tvennu.
R-listinn bryddaði upp á því nýmæli að veita tekjulitlu fólki svokallaðar viðbótarhúsaleigubætur til að brúa bilið á milli viðráðanlegrar leigu og okurkjara markaðarins. Þetta fyrirkomulag hefur verið að þróast og slípast til. Sitthvað gott er um þetta fyrirkomulag að segja. Það býður upp á sveigjanleika og valfrelsi. Hitt er augljóst, að þennan stuðning þarf að stórauka og gildir hið sama um framboð á íbúðum á vegum Félagsíbúða. Hvað sem segja má um viðbótarhúsaleigubæturnar og sveigjanleikann sem þeim fylgja, þá er óöryggið á markaði miklu meira en í íbúðum Félagsíbúða. Ekki er það þó einhlítt. Einn svartasti bletturinn á borginni á undanförnum árum er útburður fátæks fólks úr félagslegu húsnæði.
Á þessu hafa verið gefnar ýmsar skýringar, fólk hafi ekki borgar leiguna í langan tíma og stundum hafi verið um óreglu að ræða sem valdið hafi nágrönnum ónæði. Allt þetta kann að vera rétt. Það er hins vegar aldrei – ekki undir neinum kringumstæðum – forsvaranlegt að henda fólki út af heimili sínu án þess að það því sé tryggður samastaður. Í fyrsta lagi er það einfaldlega lagaleg kvöð, sem hvílir á sveitarstjórnum, að sjá til þess að allir íbúar sveitarfélagsins hafi húsnæði. Í öðru lagi er hér um að ræða félagslega skyldu okkar. Við getum ekki talist siðað samfélag nema frumskyldunni húsnæði fyrir alla sé fullnægt. Enda þótt R-listanum hafa tekist margt vel upp verður að horfast í augu við að og borgin hefur ekki staðið sig sem skyldi hvað þetta snertir.
Einu mega kjósendur treysta og það er að Vinstrihreyfinigin grænt framboð mun gera allt sem hún megnar til þess að færa húsnæðismál tekjulágs fólks til betri vegar. Þar þarf margt að koma til. Aukið framboð á leiguíbúðum, öflugra húsaleigubótakerfi og síðast en ekki síst stóraukinn stuðningur félagsþjónustunnar til aðstoðar fólki sem ekki getur séð sér farborða.  Nú þegar dýrtíðarskrúfan er farin að snúast eykst þörf á því að fylgja félagslega ábyrgri stefnu hvað þetta snertir til mikilla muna.
Þorleifur Gunnlaugsson, höf. er 3. maður á lista VG í Reykjavík
Ögmundur Jónasson, höf er alþingismaður fyrir VG í Reykjavík