ATTAC STENDUR VAKTINA
20.03.2015
Samtökin ATTAC voru stofnuð árið 1998 til að standa vaktina gegn ásælni alþjóðafjármagnsins. ATTAC er hugmyndalegt skyldmenni Tobin-skattsins en James Tobin setti fram þá tillögu ári eftir að Nixon stjórnin í Bandaríkjunum ákvað árið 1971 að afnema gullfótinn sem grundvöll gjaldeyrisviðskipta. Við það fór allt á flot og færðist nú gjaldeyrisbrask í aukana. Við svo búið lagði Tobin til að settur yrði skattur á skammtíma fjármagnsfærslur á milli gjaldmiðla til þess að hamla gegn gjaldeyrisbraski. Þeir fjármunir sem aflað yrði með þessum hætti skyldu renna til samfélagslega uppbyggilegra verkefna. ( sjá þingmál sem ég flutti oftar en einu sinni og hyggst gera að nýju: http://www.althingi.is/altext/126/s/0011.html )
ATTAC er skammstöfun úr Association for the Taxaation of (financial) Transactions and Aid to Citizens, sem á íslensku myndi útleggjast, Samtök um skattlagningu á fjármagnsflutninga til hagsbóta fyrir almenning. ATTAC samtökin voru stofnuð í árslok árið 1998 og var ætlunarverkið að tefla fram hugmyndum um alþjóðavæðingu á forsendum lýðræðis, jöfnuðar og umhverfisverndar í stað alþjóðavæðingar á forsendum gróðafjármagns.
Þess má geta að þegar alheimsandófið gegn GATS-samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hófst fyrir alvöru með gríðarlega kröftugum mótmælum í Seattle í Bandaríkjunum árið 1999 þegar WTO hélt fund þar í borg, þá stóðu ATTAC samtökin í fararbroddi. ( Sjá þingmál um GATS: http://www.althingi.is/altext/131/s/0063.html )
Hér á landi hafa ATTAC samtökin staðið að því að vekja fólk til vitundar um ágengni hins alþjóðlega auðvalds, meðal annars með upplýsingafundum um fjölþjóðlega viðskiptasamninga á borð við TiSA samningana sem nokkuð (alltof lítið þó) hafa verið í umræðu að undanförnu. Mér var boðið að halda erindi á einum slíkum fundi í vikunni og var hann afar góður að því leyti að ágætar umræður urðu þar á meðal fundarmanna.
Á fundinum vakti forrmaður ATTAC samtakanna hér á landi, Sólveig Jónsdóttir, máls á ýmsum hliðum TiSA samninganna og benti m.a. á hve varasamt væri að leggja að jöfnu hagsmuni einstakra fyrirtækja, annars vegar og almannahag, hins vegar. Gunnar Skúli Ármannsson, læknir flutti inngangstölu um efnið en hann hefur skrifað afbragðsgóðar greinar um þetta málefni og annað skylt í blöð, meðal annars nú nýlega um TiSA viðræðurnar.
Því miður gat ég ekki sótt fyrirlestur sem hann flutti á vegum ATTAC fyrir skömmu en ég leyfi mér að birta hér slóð á ágrip af ræðu hans og skýringarmyndir sem hann hafði brugðið upp á tjald í fyrirlestri sínum.
Ágrip af fyrirlestri Gunnars Skúla Ármannssonar:
http://attac.is/greinar/frj%C3%A1ls-verslun-og-tisa-samningurinn
Skrif Gunnars Skúla á heimasíðu ATTAC frá því sl. haust:
http://attac.is/greinar/fr%C3%ADverslunarsamningar-brave-new-world
Sjá heimasíðu ATTAC á Íslandi: http://attac.is/