ÁTTU AÐ GETA HALDIÐ FÖSTU STARFI EINS LENGI OG ÞÚ VILT EÐA ÞANGAÐ TIL ÞÉR VERÐUR SAGT UPP?
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um að afnema þá reglu að opinberum starfsmönnum beri að hætta í föstu starfi við 70 ára aldur.
Oft hefur þetta borið á góma. Margt mælir með þessari breytingu, sitt hvað Í mót.
Þegar ég gegndi formennsku í BSRB gerðum við einhvern tímann á því könnun hvað fólk vildi í þessu efni.
Unga fólkið kvaðst vilja hætta snemma. Þau sem nálguðust eftirlaunaaldurinn seint.
Það sem mælir með afnámi reglunnar er:
-almennt býr fólk við betra heilsufar nú en fyrr á tíð þegar reglan var sett.
-heilsufar fremur en aldur er mælikvarði á starfsgetu.
-fólk á sjálft að geta metið hvað er réttur tími fyrir eigin starfslok og á auk þess að geta ráðið sér sjálft.
-fyrir marga er vinnan veigamesti hluti lífsgleðinnar. Lög eiga ekki að ráða, aðeins geta og vilji.
- fyrir vinnustað getur það skipt sköpum að hafa á að skipa starfsfólki með reynslu og þroska sem fylgir aldri.
Það sem mælir gegn afnámi reglunnar er:
skýr regla gerir valið auðveldara og lífið líka auðveldara fyrir bæði starfsmann og vinnustað, hvorugum má gleyma! Staðreyndin er sú að einhvern tímann kemur að því að starfsgetan er ekki sem skyldi vegna aldurs. Í stað þess að vinnustaðurinn segi, ertu ekki farinn að finna fyrir aldrinum Ögmundur minn, þá ert þú floginn úr föstu starfi þegar að þessu kemur. Er ef til vill besta fyrirkomulagið að hafa línur skýrar?
-sveigjanleg starfslok hafa tíðkast víða hjá hinu opinbera með því fyrirkomulagi að fólk fer í hlutastarf eða vinnur fulla vinnu en án fastráðningar.
-einmitt vegna þess að sumir geta aldrei hætt eða yfirleitt breytt neinu í lífsmynstri sínu, þá losna vinnustaðir ekki glatt við slíkt fólk nema með því að ryðja því út. Leiðinleg staða fyrir alla.
Þótt mér finnist báðar lendingar koma til greina hallast ég þó frekar að því að fastráðningu skuli ljúka við sjötíu ára aldur en vinnustaðir haldi síðan faðmi sínum opnum, eftir því sem kostur er, fyrir fullorðnu fólki í hlutastarfi eða til að sinna tilteknum verkefnum.
Hafa ber í huga að við erum einvörðungu að tala um störf á vegum hins opinbera og fastráðningu í þau. Lykilatriði er að hafa þetta í huga.
Þrátt fyrir þetta er ég vel meðvitaður um að margir eiga mörg ár eftir sem kröftugir veitendur í starfi eftir að sjötíu ára aldri er náð, er ég þá ekki að hugsa til þeirra félaga Trumps og Bidens, en þeirra vanhæfni stafar ekki af aldri þeirra, frekar hugsa ég til Bernie Sanders, sem er þeirra elstur. Ég hugsa til margra einstaklinga vel yfir sjötugt sem ég vona að eigi sem allra lengstan starfsdag og fljúgi hátt og lengi.
Og talandi um flug þá sá ég á samfélagsmiðli í morgun myndband sem sýndi Egil Einarsson, skólabróður minn, fljúga á svifdreka frá Úlfarsfelli, eins og ekkert væri, 72 ára. Engar hömlur þar og auðvitað á meginreglan að vera sú að fólk geri það sem það vill.
Svo eru kannski einhver mörk. Við látum fólk hætta í leikskóla við sex ára aldurinn. Þá tekur nýtt skeið við. Ekki leirað endalaust. Þannig getur það líka orðið við sjötíu ára aldurinn, þá fari menn að svífa um loftin blá.
Það eina sem sjötíu ára reglan hefur í för með sér er að þú hefur ekki rétt til fastrar stöðu þinnar hjá hinu opinbera eftir sjötugt. Er nokkuð að því?
Held ekki, samt er ég ekki viss.