Atvinnuleysi er skipulagskreppa
Birtist í Mbl
Ekki leikur á því nokkur vafi að atvinnuleysi er nú eitt alvarlegasta þjóðfélagsmein í Evrópu. Evrópusamband verkalýðsfélaga hefur beint því til allra aðildarfélaga sambandsins að 28. maí verði sameiginlegur baráttudagur gegn atvinnuleysi og geri menn sitt til að vekja athygli á vandanum. Fyrir fáeinum árum hefði ekki þurft hvatningu af þessu tagi hér á landi því þjóðin var felmtri slegin þegar ljóst var í byrjun þessa áratugar að fjöldaatvinnuleysi var að hefja innreið sína í íslenskt þjóðfélag.
Nú hefur hins vegar orðið furðu hljótt um þetta þjóðfélagsböl enda þótt sex þúsund vinnufærir einstaklingar séu án vinnu.
Svipuð þróun og annars staðar
Þetta er svipuð þróun og átti sér stað í Evrópu á sínum tíma. Fyrst var rokið upp til handa og fóta, efnt til mótmæla og hvatt til aðgerða en síðan gáfust menn upp og lögðu upp laupana. Sú skoðun fer að ryðja sér til rúms að atvinnuleysi kunni jafnvel að vera óumflýjanlegt. Nú er svo komið í Evrópusambandinu að 10,7% vinnuaflsins eru án vinnu eða 17,8 milljónir manna. Þetta eru hinar opinberu tölur. Menn ætla að raunveruleikinn sé enn svartari.
Athygli vekur þegar tölur um atvinnuleysi eru skoðaðar hve útbreytt atvinnuleysi er hjá ungu fólki en að meðaltali er atvinnuleysi hjá aldurshópnum 15 til 24 ára 21% í Evrópu, en helmingurinn af þessum fjölda hefur verið án atvinnu í meira en heilt ár. Nú getur jafnvel verið enn erfiðara fyrir þá sem eru komnir til ára sinna að fá vinnu en hina sem ungir eru. Hins vegar er líklegra að þroskað fólk eigi betra með að ná tökum á vandanum en hinir yngri enda hefur það sýnt sig að mjög stórt hlutfall atvinnulausra ungmenna lendir í miklum félagslegum hremmingum.
Vandinn fer vaxandi
Hið alvarlega við ástandið í Evrópu er að það fer heldur versnandi. Þótt hagvöxtur aukist og efnahagslíf rétti úr kútnum dregur ekki úr atvinnuleysinu. Þannig eru atvinnulausir í Þýskalandi svo dæmi sé tekið 4,6 milljónir og er það meira en mælst hefur síðan í byrjun fjórða áratugarins þegar Adolf Hitler komst til valda.
Á eftirstríðsárunum var full atvinna skilgreind sem mannréttindi og sums staðar munu þau réttindi hafa verið bundin í stjórnarskrá. Nú er öldin önnur. Víðast hvar er beinlínis rekin efnahagsstefna sem miðar að því að fækka vinnandi höndum og er haft á orði að þeim mun meiri framleiðni sem fyrirtæki og stofnanir ná þeim mun meiri verði hagsæld þjóðanna. Í kjaraviðræðum í vetur var þetta boðskapur viðsemjenda okkar: Með því að fækka fólki yrði hægt að hækka kaupið við hina sem eftir yrðu.
Bætt framleiðni með því að taka upp skynsamlegri vinnubrögð og aukin tækni er vissulega eftirsóknarverð en árangurinn á að sjálfsögðu að nota þjóðfélaginu öllu til hagsbóta til dæmis með því að stytta vinnutímann í stað þess að segja upp fólki.
Ákall verkalýðshreyfingar
Í ákalli evrópskrar verkalýðshreyfingar fyrir atvinnu fyrir alla segir meðal annars: „Sífellt fleiri konur og karlar eru svipt von um að fá nokkru sinni tækifæri til að vinna fyrir sér með því að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. Þetta á að kalla réttum nöfnum: félagslega ógæfu sem leggur líf fjölda fólks í rúst, grefur undan þjóðfélagi þar sem hver getur reitt sig á annan, og veikir þannig stoðir lýðræðis. Úrbóta er þörf…“
Í fyrsta maí ávarpi samtaka launafólks hér á landi kvað við sama tón. Þar segir m.a.: „Verkalýðshreyfingin beinir því til þjóðarinnar allrar að hún vakni af þeim doða sem nú ríkir gagnvart atvinnuleysi. Þúsundir manna eru án atvinnu og margir hafa verið atvinnulausir langtímum saman. Atvinnuleysið er orðið varanlegur hluti af lífi þeirra. Verkalýðshreyfingin hafnar efnahagsstefnu sem leiðir yfir okkur atvinnuleysi. Hver maður á rétt á vinnu. Það er okkar allra að standa vörð um þann rétt.“
Mikilvægur boðskapur
Þetta er mikilvægur boðskapur og það sem er mikilvægast af öllu er að gera sér grein fyrir því að atvinnuleysi er fyrst og fremst skipulagsvandi. Þannig er atvinnuleysi ekki leið til að spara peninga, ekki nauðvörn í krappri fjárhagsstöðu. Það er einfaldlega dýrara að hafa fólk án vinnu en í vinnu. Fyrir þjóðfélagið er þetta bláköld efnahagsleg staðreynd. Ekki skortir heldur verkefnin.
Það sem skortir er vilji til að reka efnahagsstefnu sem tryggir öllum vinnu. Fyrsta skrefið sem ætti að stíga er að leggja til hliðar þá stefnu og öll þau áform sem miða að því að ná aukinni framleiðni með því að fækka fólki.
Þetta kallar á gjörbreytta afstöðu frá því sem nú almennt er við lýði, breytta stefnu í öllum grundvallaratriðum. Og verkefnið í mótun allra þeirra þátta sem hafa áhrif á atvinnulífið, skattastefnu og hina efnahagslegu og félagslegu umgjörð vinnumarkaðar almennt, þarf að ganga út á þetta: Að búa svo um hnútana að eftirsóknarvert verði að fjölga vinnandi höndum.