Fara í efni

AUGLÝSIR EFTIR UMRÆÐU UM MENNINGARPÓLITÍK


Í gær birtist í Blaðinu mjög athyglisvert viðtal Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Ólaf Kvaran, fráfarandi forstöðumann Listasafns Íslands. Víða er komið við í viðtalinu og er Ólafur m.a. spurður hvort hann telji það heppilega þróun að einkafyrirtæki styrki Listasafnið en sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin skorið niður við ýmsar ríkisstofnanir á sama tíma og þeim hefur verið gert að leita á náðir markaðarins um fjárframlög. Um þetta segir Ólafur Kvaran: " Ástæðan fyrir því að við höfum getað ráðist í margt af því sem við höfum gert er að við höfum átt mjög gott samstarf við fyrirtæki sem hafa styrkt Listasafnið. Sá stuðningur hefur skipt afar miklu máli. Samt sem áður má segja að fjárveitingar til rekstrarins séu alltaf vandamál. Það er orðið löngu tímabært að rekstrarfé safnsins verði endurskoðað. Þetta snýst um það hvort við viljum hafa sterkar og öflugar menningarstofnanir og veita almenningi aukna og betri þjónustu. Sú mikla aðsóknaraukning sem hefur orðið að Listasafninu að undanförnu sýnir að fólk hefur mikinn áhuga á því sem safnið hefur upp á að bjóða. Í velferðarsamfélagi eins og okkar tölum við gjarnan um rétt fólks til heilbrigðisþjónustu. Á sama hátt er eðlilegt og mikilvægt að tala um rétt fólks til menningar og aðgengis að henni. Það er að sjálfsögðu alltaf pólitísk spurning hvað ríkisvaldið  á að vera sterkt í þessari uppbyggingu eða hvort á að láta hana alfarið í hendurnar á hinum frjálsa markaði sem stofnanir eins og Listasafnið verða þá háðar. Af einhverjum ástæðum hefur ekki orðið pólitísk umræða í samfélaginu um þessa stöðu menningarstofnana og þá um leið rétt fólks til menningar sem hluta af eðlilegum lífsgæðum. Í menningarumræðu þarf pólitíska stefnumörkun. Þetta er meðal annars spurning um hvað menningarstofnanir eigi að vera sterkar þannig að þær geti sinnt hlutverki sínu og um leið er þetta spurning um sterkt eða veikt samfélag."

Þetta er mergjuð og innihaldsrík hugleiðing þar sem settar eru fram grundvallarspurningar.

1) Þannig talar Ólafur Kvaran um rétt fólks til menningar. Þessari nálgun er ég sammála vegna þess að hún byggir á þeirri hugsun að öllum eigi að búa möguleika á því að lifa innihaldsríku lífi.

2) Ólafur Kvaran vekur einnig athygli á því að með því að gera menningarstofnanir háðar markaðnum um fjárframlög undirgangast þær jafnframt áhrif hans og vald.

3) Þá segir Ólafur Kvaran að spurningin snúist ekki um það eitt að gera menningarstofnanir sterkar og öflugar heldur samfélagið allt.

4) Ólafur Kvaran auglýsir eftir pólitískri umræðu um menningarpólitík. Slíka hvatningu eiga stjórnmálaflokkar að taka alvarlega.

Hafi Blaðið þökk fyrir að birta þetta athyglisverða viðtal við fráfarandi forstöðumann Listasafns Íslands.