AUGLÝST EFTIR UMRÆÐU - OG MEIRI UMRÆÐU!
Af nógu er að taka fyrir áhugafólk um þjóðfélagsmál þessa dagana, alla þá sem er ekki sama um hvernig samfélag okkar er byggt upp.
Verið er að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Spennandi tækifæri eru að opnast á „heilbrigðismarkaði" segir þingkona Sjálfstæðisflokksins. Lífeyrissjóðirnir eru farnir að fjárfesta í þessum geira og segjast munu koma inn með vaxandi þunga. Þar með eykst þrýstingur á einkavæðingu velferðarþjónustunnar. Sinnum, Eva Consortium og Klíníkin fá byr í seglin. Heilbrigðisráðherrann hefur uppi blessunarorð á táknrænum augnablikum, sbr. (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/12/05/broadway_breytt_i_laeknamidstod/ ).
Áfram skal virkjað í þágu stóriðju. Landsvirkjun hleypur um Þjórsárbakka eins og graðnaut eftir að heimild var gefin fyrir Hvammsvirkjun. Stjórnmálamenn sem aðeins hugsa um form en ekki innihald voru tilbúir að loka augunum eftir að ljóst var að formsatriði fyrir Hvammsvirkjun væru í lagi. Einhverjar efasemdir heyrast nú frá laxveiðimönnum um að formsatriðum hafi verið fullnægt. Gott er að heyra hljóð úr þessu horni. Hugsanlega á það eftir að hreyfa við einhverjum. Á Hjörleif Guttormsson nenna menn greinlega ekki að hlusta eins og sakir standa. Að sjálfsögðu verður það gert síðar - þegar skaðinn er skeður! sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tvo-minningarbrot-ur-virkjunarsogu-islands
Ferðamálaráðherranum er að takst að skapa eigendum Kersins hefðarrétt á að rukka fyrir aðgang að náttúruperlu - þvert á landslög. Hvers vegna? Jú vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn passar upp á sína og aðrir sýna andvaraleysi. Þess vegna gengur þetta upp. Fáir nenna svo mikið sem að spjalla um málið. Til hamingju Óskar Magnússon. Nákvæmlega svona öðluðust kvótagreifar sinn hefðarrétt til sjávarauðlindarinnar.
Mig langar til að höfða til allra „umræðustjórnmálamannanna", sem segjast vilja standa vaktina með „orðræðu", ekki „gamaldags átökum", heldur rökræðu, að þeir láti nú til sín taka. Rökræða er vissulega það sem við þurfum á að halda. Við þurfum kröftuga gagnrýna rökræðu. Kannski svo kröftuga að skarist við hið bannfærða hugtak „átök"? En altént nægir varla að segjast vilja „umræðustjórnmál" og láta þar við sitja - eða hvað?
Einhvers staðar sá ég að greiningardeildir alþjóðlegra fjármálastofnana - þær hinar sömu og vilja setja allt á markað, húsnæðiskerfið, heilbrigðiskerfið, auðlindirnar - telji enga hættu stafa af nýjabruminu í íslenskum stjórnmálum.
Píratar sem nú fara með himinskautum í skoðanakönnunum voru nefndir sérstaklega og spurt hvað myndi henda kæmust þeir til valda í ríkisstjórn á Íslandi. Greiningardeildir fjármálaaflanna töldu þá vera sér og sínum hagsmunum sauðmeinlausa.
Frjálshyggjumenn fagna að vonum árangri sínum og fyrirsjáanlegum sigrum! Og sigurinn verður þeirra ef við ekki tökum alvöru umræðu um þessi mál, heilbrigðiskerfið, markaðsvæðingu náttúrunnar, nýtingu hennar í þágu stóriðju og fjármálakerfi sem við sjáum nú endurfæðast í svipaðri mynd og ófreskjan frá 2007. Af nógu er að taka til að ræða og spjalla um. Vantar bara fleiri spjallara.Eða þarf kannski eitthvað meira? Skipulagt andóf?
En fyrst tökum við að sjálfsögðu umræðuna. Ég er sannfærður um að með málefnalegri umræðu mun andvaraleysið víkja.