Fara í efni

"AUKA FJÁRFRAMLÖGIN...Á NÆSTU ÁRUM"


Á Alþingi var nýlega bent á að ráðuneytin væru smám saman að taka á sig mynd kosningaáróðursstofa (sjá HÉR og HÉR). Ráðherrar klippa á borða, birta skýrslur og áróðursbæklinga eins og Siv Friðleifsdóttir gerði ekki alls fyrir löngu, fjármagnaðan með peningum úr Framkvæmdasjóði aldraðra! Stormur í vatnsglasi, sagði ráðherrann þegar að þessu var fundið.  Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra boðar nýja tíma með stórkostlegum fjárframlögum ...á næstu árum.
Í fyrrgreindum umræðum á dögunum um þetta efni sagði ég að vel kæmi til greina að mínu mati að sett yrðu ákvæði í lög sem meinuðu ráðherrum að gefa á síðustu metrum kjörtímabils yfirlýsingar um fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs fram í tímann, fram á næsta - jafnvel næstu - kjörtímabil. Það á ekki að líðast að nota ríkissjóð til að kaupa sér atkvæði. Þetta er verra fyrir þá sök að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ítrekað leikið þennan leik áður og síðan svikið fyrirheit sín að kosningum loknum.

Í dag lögðu þær saman menntamálaráðherrann og utanríkisráðherrann. Þær Þorgerður Katrín og Valgerður sendu á alla fjölmiðla mynd af sjálfum sér ásamt meðfylgjandi texta:
"Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra undirrituðu í dag samkomulag um samstarf ráðuneytanna á sviði menningarmála. Samkomulagið felur það í sér, að samstarf ráðuneytanna á þessu sviði skuli styrkt. Jafnframt skal mörkuð stefna sem meðal annars taki mið af því að efla áhuga erlendis á íslenskri list og menningu, auka möguleika og áhrif íslenskra listamanna á alþjóðlegum vettvangi, bæta menningarímynd Íslands og auka gagnkvæm menningarsamskipti við önnur lönd og menningarsvæði.
Ráðuneytin munu á yfirstandandi ári hvort um sig leggja fé af mörkum til þessa. Stefnt er að því að auka fjárframlögin í áföngum á næstu árum."
Já, það var nefnilega það, fjárframlögin koma aðallega á næstu árum. En myndin er ágæt.