Fara í efni

ÁVARP VIÐ SENDIRÁÐ: SLEGGJAN OG STEÐJINN

palestina -öj
palestina -öj

Innaríkisráðherra Ísraels sagði í gær að ásetningur Ísraelsríkis væri að sprengja Gaza-svæðið aftur til miðalda; laska grunnstoðir samfélagsins þar - helst eyðileggja þær.

Þetta sagði Eli Yishai innanríkisráðherra og sjónvarpið sýndi vel klæddan mann með bindi, sem gæti hafa verið að kynna nýjustu hagtölur í Stjórnarráði Íslands eða árangur í samgöngubótum; ný göng, nýja brú eða nýtt vatnsból.

Eli Yishai innanríkisráðherra var að tala um allt þetta, vatnsbólin og vegina og spítalana líka. Ekki hvernig ætti að byggja upp og bæta, gera vatnsbólin heilnæmari, aðgengilegri og hagstofuna skilvirkari.
Nei, takmarkið er að eyðileggja þetta allt. Af skipulegum ásetningi, vísindalegri nákvæmni. 
Þegar Indifatah hin síðari hófst haustið 2000 fór ísraelski herinn fljótlega inn í Ramallah, höfuðborg Palestínu, til að lama stjórnkerfið. Fyrsta stoppistöð var ekki lögreglustöðin. Nei, það var hagstofan. Hún var sprengd í loft upp. Þar með voru almannatryggingar lamaðar. Og Palestína á leið til miðalda.

Hvað þyrfti að gera til að koma OKKUR aftur í miðaldir? Við værum alla vega komin hundrað ár til baka ef Gvendarbrunnunum  - vatnsbólum okkar Reykvíkinga - yrði spillt. Svo yrði Perlan sprengd og hitavatnstankarnir undir henni, síðan rafmagnið og þá sjúkrahúsin.

Allt þetta er nú að gerast á Gaza. Það er að gerast í alvöru - eina ferðina enn.  Og við sitjum og fylgjumst með. Bíðum eftir næsta fréttatíma. Hvað verður búið að drepa mörg börn í tíu fréttum?

Marga gyðinga dreymdi um land þar sem allir væru gyðingar, þar sem gyðingar væru ekki minnihluti heldur meirihluti, þar sem umferðarlögreglumaðurinn og hermaðurinn og bakarinn og bæjarstjórinn væru gyðingar. Allir væru gyðingar og enginn mismunun væri og engin kúgun og ekkert kynþáttahatur.
Og þörfin og þráin og þjáningin var svo mögnuð að þau náðu markmiðum sínum og Ísrael varð til. Og dugnaðurinn; hann var knúinn áfram af skelfingu þjóðar á flótta.

Þau fengu því ekki aðeins framgengt að umferðarlögreglan og hermaðurinn eru gyðingar heldur einnig, kúgarinn, þjóðarmorðinginn og pyntingastjórinn. Ríkið Ísrael hefur breyst í ófreskju, sem fær að leika lausum hala, undir verndarvæng Bandaríkjanna.

Og þjóðarmorðinu og pyntingunum er lýst með orðfæri teknókrata og verkfræðinga. Það er talað um útgöngubann, lokað hersvæði, stjórnsýslu-farbann, umsátur, fyrirbyggjandi árásir, hryðjuverkavarnir... En í raun fer fram hægfara þjóðarmorð, hvorki meira né minna. Og ekki í felum. Opinskátt er nú talað um að sprengja fólk aftur til miðalda.

Er einhver málstaður svo vaxinn að hann réttlæti blóðsúthellingar, kúgun, pyntingar eða útrýmingu heillar þjóðar? Eru til einhverjar málsbætur fyrir slíkan verknað? Er hægt að ákalla eitthvert æðra vald til gefa út réttlætingu fyrir slíkum óhæfuverkum? Er hægt að ávísa á þjáningar forfeðranna sem einhvers konar leyfi til að níðast á heilli þjóð?

Og er hægt að ætlast til þess að þjóðir heimsins sitji þegjandi í hægindastólnum og fylgist með morðunum í sjónvarpinu, kvöld eftir kvöld, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, já áratugum saman.

Menn telja sig vita hvers vegna farið er í þennan leiðangur nú. Annars vegar vilja Ísraelar grafa undan samfélagi Palestínumanna svo það verði ekki viðurkennt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem sjálfstætt ríki. Hins vegar eru kosningar í Ísrael í janúar. Þá vill það gerast að litlir menn fari á kreik til að sanna sig með því að stíga á fólk sen stendur hallloka.

Árið 1988 sagði Shamir forsætisráðherra Ísraels í ræðu í New York  - frægri að endemum - að sá tími myndi renna upp að Palestínumenn yrðu muldir einsog engisprettur og höfuð þeirra moluð á klöppunum. 

Nú er sleggjan reidd til höggs til að mylja palestínsku þjóðina í smátt. Og við? Við erum steðjinn. Aðgerðaleysi okkar er steðjinn sem styður á móti sleggju ofbeldismannanna. Viljum við það?  Nú er kominn tími til að víkja steðjanum undan og koma í veg fyrir ódæðin.

Að hafa verið fórnarlamb glæps gefur engum manni rétt til að fremja glæp.

Bandaríkjamenn réðust inn í Írak ásamt ýmsum Nató-ríkjum, að eigin sögn til að setja af harðstjóra - ekki til að gæta að olíuhagsmunum - Nei, til að setja af harðstjóra; manninn sem Kissinger hafði kallað góða bófann, „the good crook", á meðan hann enn var þeim hlýðinn og undirgefinn.
Sama í Afganistan - þar var ráðist inn.
Og nú síðast var það Líbía - þar var það líka harðsjóri sem Bandaríkjamenn sögðu að þyrfti að setja af - nú skyndilega, eftir öll þessi ár
En Ísrael? Er engin harðstjórn þar sem þarf að setja af?
Er það kannski krafa okkar að ráðist verði á Ísrael? Nei!
Krafan er að Bandaríkjamenn hemji skjólstæðing sinn, Ísraelsríki; komi í veg fyrir ofbeldisverk á vegum þess.....
Og þetta geta Bandaríkjamenn gert... 
Þetta getur Obama gert...
Hann heldur um pyngjuna, hann sér fyrir vopnunum...
Ástæða þess að við erum við bandaríska sendiráðið er sú að í Washington eru teknar þær ákvarðanir sem máli skipta til að stöðva blóðbaðið og rjúfa herkvína. Nú þarf að veita Palestínu og þá sérstaklega Gazasvæðinu alþjóðlega vernd á vegum Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra Íslands hefur fyrir okkar hönd beint þeirri kröfu inn á hinn opinbera vettvang að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hlutist til um það að ofbeldið verði stöðvað þegar í stað.

Kröfur þessa fundar eru:

- STÖÐVIÐ BLÓÐBLAÐIÐ
- RJÚFIÐ HERKVÍNA
- VEITIÐ FRJÁLSRI PALESTÍU ALÞJÓÐLEGA VERND
- OBAMA, STOP THE MASSACRE!
 

Sjá: http://visir.is/segir-arasirnar-a-palestinu-haegfara-thjodarmord---eldraeda-ogmundar-i-heild-sinni/article/2012121118881
palestina - mannfjöldi
palestina 2
palestina sveinn runar
palestina 10
palestina 11