B fyrir bjór
Framsóknarflokkurinn segist vera á miklu flugi. Vissulega er það rétt að flokkurinn virðist vera að sækja í sig veðrið. Jónína Bjartmarz frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík sagði að þetta væri vegna þess að málefnastaða flokksins væri sterk og fólk væri að átta sig á því. Nú er spurningin hversu sterk málefnastaðan er. Ung kona hringdi í kosningaþátt RÚV Hljóðvarps í gær og sagði farir sínar ekki sléttar. Hún hefði verið á bar í Reykjavík kvöldið áður þar sem fólk hafði orðið fyrir talsverðum ágangi af hálfu gjöfulla framsóknarmanna. Þeir hefðu viljað hella bjór ofan í fólk enda stæði bjór fyrir B en það mun vera listabókstafur Framsóknarflokksins. Þegar Framsóknarflokkurinn segist vera að styrkja sig vaknar sú spurning hvort bjórinn komi þar við sögu. Flokkurinn er kominn nokkuð upp fyrir bjórprósentuna í fylgi, nær léttvíninu. Við skulum bara vona að flokkurinn fari ekki að fyllast stórmennskubrjálæði og sækjast eftir enn meiri styrk. Þegar Framsókn fer að bjóða upp á Johnny Walker þá vitum við hvað klukkan slær.