BÆJARSTJÓRNARMEIRIHLUTINN Í HAFNARFIRÐI FELLUR Á STÓRIÐJUPRÓFI !
Ég neita því ekki að mér brá í brún þegar básúnað var í fjölmiðlum að "þverpólitísk samstaða" hefði náðst í Hafnarfirði um skipulag fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Rannveig Rist, forstjóri hjá Alcan birtist skælbrosandi á sjónvarpsskjánum og fagnaði ákaft hinni "þverpólitísku samstöðu" sem nú hefði myndast. Ekki lái ég Rannveigu að kætast því nákvæmlega svona hafði fréttaflutningurinn verið. Heimildin var heldur ekki af verri endanum, sjálfur Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fyrrum formaður Blaðamannafélags Íslands!
Hann hafði efnt til fréttamannafundar til að skýra frá því að lokið væri nýrri tillögu að deiliskipulagi. Að þeirri vinnu hefðu komið fulltrúar allra flokka. Ergó: samstaða væri um málið!
Gróf rangtúlkun
Þetta er vægast sagt misvísandi framsetning. Fastar mætti kveða að orði og tala um grófa rangtúlkun. Staðreyndin er vitanlega sú, eins og margoft hefur komið fram - og gerir nær daglega - í skrifum bæjarfulltrúa og annarra fulltrúa VG í stjórnkerfi Hafnarfjarðar, að flokkurinn er algerlega andvígur stækkun álversins.
Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að það ruglar fólk í ríminu að láta kjósa um deiliskipulag eins og meirihlutinn í Hafnarfirði ráðgerir, en ekki beint um stækkunaráformin. Tekið skal undir það sem fram kemur í fréttatilkynningu sem VG í Hafnarfirði sendi út til fjölmiðla til að leiðrétta misskilninginn, sem rangtúlkanir bæjarstjóra höfðu valdið: "Bæjarstjórinn setur samasemmerki á milli deiliskipulagsvinnu annars vegar og fylgispektar við stækkun álbræðslunnar hins vegar. Það sýnir hve fráleit þessi tenging er í kosningum um stækkunina. Afstaða VG hefur verið og er að kjósendur eigi að standa frammi fyrir skýrum valkostum um þetta mikilvæga mál og kjósa um stækkun álbræðslunnar en ekki deiliskipulag."
Tilviljun eða samantekin ráð?
Athygli vekur að tilkynning um niðurstöður skoðanakönnunar, sem er óþægileg fyrir Alcan, er gerð opinber í tengslum við meinta nýtilkomna "þverpólitíska samstöðu" um málefnið! Skyldi þetta vera tilviljun? Eða eru þetta ef til vill samantekin ráð? Gæti verið að meirihlutinn í Hafnarfirði sé ekki eins óhlutdrægur í þessu máli og hann stundum vill vera láta? Hér á heimasíðunni birtist nýlega lesendabréf þar sem minnt er á að sami meirihluti í Hafnarfirði og nú talar um "þverpólitíska samstöðu" gekk frá landsölu til Alcan á árinu 2003. Til hvers keypti Alcan land? Jú, til að stækka álverið. Og hvers vegna var landið selt? Til að Alcan gæti stækkað álverið.
Lýðræðisbaráttan farin að skila sér
En hvað hefur þá breyst? Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi breyst í afstöðu meirihlutans í Hafnarfirði. Það sem hefur hins vegar breyst er að landið er að rísa gegn stóriðjustefnunni og stjórnvöld sjá nú að þau eiga ekki annarra kosta völ en heimila kosningar. Það er mikið vatn runnið til sjávar – þótt ekki sé liðinn langur tíma - frá því VG bar fram tillögu á Alþingi um að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun. Enginn þingmaður – ég endurtek, enginn þingmaður - utan þingflokks VG studdi þá tillögu á þingi! Þetta mun vonandi aldrei endurtaka sig. En nú loksins þegar kjósa á um mál af þessu tagi verður atkvæðagreiðslan að vera á eins skýrum forsendum og kostur er og lágmarkskrafa er að bæjaryfirvöld komi hreint til dyranna en misnoti ekki aðstöðu sína til að gera andstæðingum sínum í þressari baráttu upp skoðanir. Á því prófi þótti mér sá ágæti maður Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði falla í fréttatímum hljóðvakamiðlanna í kvöld.
Hér fylgir ályktun VG í Hafnarfirði í heild sinni:
"Ekki liggur fyrir þverpólitísk samstaða í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. VG í Hafnarfirði mótmælir harðlega yfirlýsingu bæjarstjóra Hafnarfjarðar þar að lútandi.
Hið sanna í málinu er að fulltrúar VG hafa ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, komið að skipulagsvinnu sem m.a. lýtur að starfs- og mengunarskilyrðum stóriðju innan bæjarmarkanna. VG hefur hins vegar tekið afdráttarlausa afstöðu gegn stækkun álbræðslunnar í Straumsvík. Þessi afstaða hefur ítrekað komið fram af hálfu fulltrúa VG innan bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og annars staðar á opinberum vettvangi.
Þetta er bæjarstjóra Hafnarfjarðar fullkunnugt um. Fréttaflutningur í dag 24.janúar á rætur að rekja til fréttamannafundar sem efnt var til í dag þar sem bæjarstjóri tekur þá afstöðu að rangtúlka álit starfsfhóps skipulags og byggingaráðs Hafnarfjarðar um hugsanlega stækkun álbræðslunnar, Alcan og stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar í hag.
Bæjarstjórinn setur samasemmerki á milli deiliskipulagsvinnu annars vegar og fylgispektar við stækkun álbræðslunnar hins vegar. Það sýnir hve fráleit þessi tenging er í kosningum um stækkunina. Afstaða VG hefur verið og er að kjósendur eigi að standa frammi fyrir skýrum valkostum um þetta mikilvæga mál og kjósa um stækkun álbræðslunnar en ekki deiliskipulag."
Bæjarstjórnarflokkur og stjórn Vinstri grænna í Hafnarfirði