Bætum samfélagsþjónustuna.
Birtist í Mbl
Á vegum BSRB hefur verið ráðist í átak til að vekja umræðu í samfélaginu um framtíð almannaþjónustunnar, þeirrar þjónustu sem rekin er á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga og er þar vísað til heilbrigðis- og menntakerfis og stoðkerfis samfélagsins almennt, löggæslu, samgangna og annarra þátta sem reynst hefur nauðsynlegt til að velferðarþjóðfélag fái þrifist. Á vegum samtakanna er kominn út bæklingur sem ber heitið, Bætum samfélagsþjónustuna. Þar er að finna stefnuáherslur BSRB um nýsköpun í almannaþjónustu. Við viljum að starfsmenn séu þátttakendur í þeirri umsköpun sem nú á sér víða stað og fyrir BSRB vakir að beina umræðunni um breytingar á kerfum og starfsháttum einnig inn í okkar raðir, hvetja fólk til umræðu um eigin viðfangsefni og leita leiða til að bæta þá starfsemi sem viðkomandi rækja svo veita megi notendum sem besta þjónustu á sem hagkvæmastan hátt.
Styrkja þarf stöðu trúnaðarmanna
Stjórn BSRB mun á næstu mánuðum efna til funda með félagsmönnum og þá ekki síst trúnaðarmönnum um þessi efni - hlusta eftir þeirra rödd og reyna að styrkja þá í starfi. Staðreyndin er sú að hlutur trúnaðarmanna á vinnustöðum verður sífellt meiri og ábyrgð þeirra vex - þetta má rekja til nýrra launakerfa og aukinnar áherslu á vinnustaðinn samfara því að dregið er úr samhæfingu og miðstýringu. Í þeim viðræðum sem nú eru hafnar við ríki og sveitarfélög leggjum við einmitt mjög ríka áherslu á að styrkja stöðu trúnaðarmannsins.
Aðdragandinn að þessu átaki BSRB er sá að á seinni hluta síðasta árs var ákveðið að gera könnun á afstöðu þjóðarinnar til samfélagsþjónustunnar þar sem spurt yrði hvað mönnum þætti gott og hvar betur mætti gera. Hvort tveggja vildum við draga fram í dagsljósið, hið jákvæða þannig að við gætum bent á það velferðarþjónustunni til varnar á niðurskurðartímum þar sem einkavæðing og þjónustugjöld hafa verið hátt á vinsældalista stjórnvalda. En einnig vildum við vita hvar úrbóta væri þörf svo við gætum unnið að endurbótum.
Almannaþjónusta og annar atvinnurekstur ekki andstæður
Alltof oft vill það brenna við að almannaþjónustunni og öðrum atvinnurekstri er stillt upp sem andstæðum. Þetta er byggt á miklum misskilningi enda kemur í ljós þegar atvinnurekendur eru spurðir um mikilvægi samfélagsþjónustunnar þá telja þeir hana yfirleitt vera forsendu þess að öflugt atvinnulíf fái dafnað. Í bæklingi BSRB er vísað í könnun sem danska atvinnumálaráðuneytið gerði árið 1996 þar sem talsmenn fyrirtækja voru spurðir hverju þeir leggðu mest upp úr þegar þeir tækju ákvörðun um staðsetningu fyrirtækja sinna. Kom fram að yfirgnæfandi meirihluti taldi góða almannaþjónustu skipta höfuðmáli. Yfir 90% sögðu að skólamálin, heilbrigðismálin og löggæslan skiptu höfuðmáli. Hér getur hver horft í eigin barm og spurt hvað hann eða hún vilji hafa til staðar í því samfélagi sem starfað er í og búið. Að þessu leyti fara hagsmunir launafólks og atvinnufyrirtækja saman þegar að er gáð. Í könnun sem Félgsvísindadeild Háskóla Íslands gerði fyrir BSRB síðastliðið haust til undirbúnings þessu átaki kom fram, að almennt leggja Íslendingar mikið upp úr góðri velferðarþjónustu og það sem meira er, þeir eru reiðubúnir að greiða skatta til að hún geti orðið sem allra best. Athyglisvert er að í samanburði við könnun sem gerð var fyrir fáeinum árum fjölgar þeim sem hafna notendagjöldum, það er að segja sjúklingagjöldum, skólagjöldum og annarri gjaldtöku á einstaklinga innan samfélagsþjónustunnar og vilja þess í stað að hún verði fjármögnuð með almennum sköttum þar sem þjóðin í sameiningu axlar byrðarnar.
Notum hugtökin rétt
Á undanförnum árum hafa átt sér stað miklar breytingar í almannaþjónustu. Þeir sem starfa í almannaþjónustu hafa staðið í fararbroddi fyrir ýmsum framförum og nýjungum á sínu starfssviði. Við teljum mikilvægt að virkja þessa krafta á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Því miður hefur þess nokkuð gætt að orðið "nýsköpun" sé notað fyrir niðurskurð, verktakasamninga, einkaframkvæmd og einkavæðingu. Þennan öfugsnúning viljum við leiðrétta. Skipulagsbreytingar í þessum anda hafa iðulega leitt til kostnaðarsamari kerfa og lakari þjónustu. Mikilvægt er að þegar ráðist er í grundvallarbreytingar á rekstraformi eða starfsháttum innan almannaþjónustunnar séu málin hugsuð til enda og ekki rasað um ráð fram. Fyrir sitt leyti leggur BSRB áherslu á vilja samtakanna til að stuðla að markvissum vinnubrögðum sem leiða til raunverulegra framfara almenningi, okkur öllum, til hagsbóta. Samráð og samningar eru sanngjarnasta aðferðin til að tryggja að breytingar á hefðbundnum starfsferlum skili tilætluðum árangri. Með þessu móti mun okkur takast að bæta samfélagsþjónustuna.