Fara í efni

BALDUR JÓNASSON OG FUGLAR FRELSISINS

Stefna - félag vinstri manna
Stefna - félag vinstri manna
Baldur Jónasson, þingeyingur, hagyrðingur, pólitískur samherji og góður vinur minn til langs tíma sameinaðist í dag Móður Jörð í Sóllandi. Það er heitið á fallegum grafreit í Fossvogskirkjugsarði fyrir duftker. Baldur Jónasson hefur alla tíð verið maður hlýju og velvilja og á því vel heima í Sóllandi.
Því miður gat ég ekki verið viðstaddur útför Baldurs sem fram fór um miðjan júní  en þeim mun betra var að geta verið viðstaddur látlausa en hátíðlega athöfn í Sóllandinu í dag.
Í minningargrein sem við Svanhildur Kaaber skrifuðum í sameiningu um Baldur minntumst við meðal annars aðkomu hans að stofnun Stefnu, félags vinstri manna, árið 1998. Baldur átti marga góða þanka sem rötuðu inn í stofnskrá Stefnu og hugmyndina að svönunum þremur - fuglum frelsisins  - í merki félagsins átti Baldur, en hönnun öll var hins vegar á hendi hins listfenga Páls Svanssonar, Jóhannessonar úr Kötlum.

Umrædd minningargrein um Baldur Jónasson:
Baldur JónassonVinátta okkar við Baldur Jónasson var samofin og nátengd. Víða lágu leiðir saman. Þannig áttum við öll tengsl við Ríkisútvarpið, annað okkar sem starfsmaður, hitt sem stjórnarmaður en sjálfur var Baldur starfsmaður Ríkisútvarpsins um langt árabil - ætíð hliðhollur þeirri stofnun og hún oftast honum, ekki síst þegar á reyndi og alvarleg veikindi hans fóru að gera vart við sig. Við vorum um skeið öll samstiga í réttindabaráttu launafólks en Baldur var um árabil formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og lét til sína taka á vettvangi kjarabaráttunnar þar sem okkur var einnig að finna.
En svo voru það stjórnmálin. Saman stóðum við að stofnun Stefnu, félags vinstri manna, undir síðustu aldamót, þegar okkur þótti tími til að hefja upp seglin svo vinstri vindar mættu blása í þau. Stefna, félag vinstri manna lagði grunninn að Vinstrihreyfingunni grænu framboði  fyrir þann stóra hóp sem ekki kom úr röðum flokksmanna Alþýðubandalagsins. Það var óflokksbundið fólk, fólk úr kvennahreyfingunni og verkalýðshreyfingu og víðar að.
Vorið 1998 efndi Stefna  þannig til málfunda um umhverfismál, utanríkismál, jöfnuð og jafnrétti, alla þá þætti sem VG átti eftir að byggja á enda  tók það fólk sem aðild átti að Stefnu, meira og minna allt þátt í stofnun hreyfingarinnar.
Merki Stefnu sýndi þrjá glæislega svani sem flugu til vinstri. Einhver hafði á orði að á bréfsefni  væri það ekkert sérstaklega framfarasinnað á að líta, að sjá þessa fugla frelsisins  fljúga til vinstri en ekki eins og lesaugað ber okkur. Væri það ef til vill ætlunin að fara aftur á bak; halda til fortíðar? Við kærðum okkur kollótt, enda margt gott að finna í arfleifð liðins tíma sem væri ómissandi við smíði framtíðarinnar. Aðaðlatriðið væri að vera trú gildum félagshyggju og vinstristefnu.
Í  þessu starfi  var Baldur Jónasson mikill gerandi, kappsfullur, hugmyndaríkur og alltaf skemmtilegur. Hann var mjög vel hagmæltur og  kunni góð skil á sögunni. Ást hans á landi okkar og menningu birtist meðal annars í ötulli baráttu hans nú nýlega fyrir því að íslenska ríkið keypti Grímsstaði á Fjöllum svo sú mikla jörð hafnaði ekki í erlendum auðmannshöndum. Hans hlutur fór ekki hátt fremur en í mörgu örðu en var afgerandi engu að síður. En ofar öllu var Baldur góður vinur og traustur. Það var gott að leita hjá honum ráða. Og það gerðum við oft.
Ótal stundirnar höfum við átt saman, en eftirminnilegastar eru þær sem við áttum í sumarbústað þeirra Margrétar á Þingvöllum, þar sem farið var í berjamó og síðan grilluð eðal-bleikja í góðra vina hópi. Í upphafi aðventu komu Baldur og Margrét á þeim sið að hittast yfir góðum mat og drykk.
Baldur var vinmargur maður. Fólki fannst gott að vera nálægt honum, enda lagði hann alltaf gott til mála. Hvað í honum bjó sýndi Baldur best þegar heilsa hans  brast. Aldrei var hans eigin líðan honum efst í huga heldur hvernig lífið léki aðra.
Að Baldri Jónassyni er mikil eftirsjá. Hans verður sárt saknað.
Svanhildur Kaaber og Ögmundur Jónasson