BANVÆN ORÐ OG EKKI SAKLAUS
Sem kunnugt er hefur ríkisstjórn Íslands heimilað fyrir hönd þjóðarinnar aukin hernaðarumsvif Bandarikjamanna og NATÓ á Íslandi og við Ísland.
Og stríð og hernað styður Ísland nú sem aldrei fyrr. Milljörðum íslenskra króna hefur verið varið til þess að viðhalda manndrápum í Úkraínu. Nú síðast í febrúar var ákveðið að bæta í. Það kom meðal annars fram í grein í Morgunblaðinu hinn 24. febrúar eftir Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra undir fyrirsögninni Traustur bandamaður.
Hinn trausti bandamaður var Ísland sem væri “framúrskarandi ríki á heimsvísu í öllum samanburði ...” Og aftur nú í vikunni var okkur sagt að þessi stuðningur yrði til framtíðar í þeim anda sem þegar hefur verið hamrað á, það er, uns sigur vinnst.
En eru ekki einhver takmörk fyrir banvænum bjánskapnum?
Í dag birti Morgunblaðið fréttir frá höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel þar sem Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, hvatti NATÓ-ríkin til dáða: Koma verði evrópskum hagkerfum í stríðsham.
Skyldi engum í ríkisstjórn eða á Alþingi finnast ástæða til að andæfa svona glórulausu stríðsæsingatali? Fram hefur farið umræða í utanrikismálanefnd Alþingis af minna tilefni en þessu. Þetta er línan frá BNA, NATÓ og ESB: Að koma Evrópu í stríðsham. Þetta kemur okkur því öllum við!
Um þetta sameinast allir “traustu bandamennirnir” sem “framúrskarandi rikið” reiðir sig á. Og auðvitað á allt að vera gagnkvæmt, að hægt sé að reiða sig á að “framúrskarandi ríkið” láti í té alla þá aðsöðu sem stríðhaukarnir fara fram á.
Á það hefur þegar verið fallist af Íslands hálfu. Það sjáum við í yfirlýsingum, annað þegar í framkvæmd en sumt hefur verið samþykkt með þögninni.
Ísland er með öðrum orðum þegar í þeim stríðsham sem forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins kallar eftir.
Varla er ég einn um að finnast allt þetta vera óhugnanlegt því þeir sem tala eru þeir sem ráða. Og þegar þeir sem ráða hvetja til stríðs þá eru orð þeirra ekki lengur saklaus, þau eru banvæn.
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu