BARÁTTA HUGSJÓNAFÓLKS
03.03.2014
Öðru hvoru er efnt til undirskrifta herferða til að knýja á um tiltekinn málstað. Amnesty International gerir þetta til varnar einstaklingum sem sitja í fangelsi sviptir mannréttindum, fólk í kjarabaráttu gerir þetta iðulega til að vekja athygli á málstað sínum eða þau sem vilja að tiltekið hús standi en verði ekki rifið. Oftast er um skipuleg samtök að ræða, samtök launafólks, eða mannréttindasamtök. Það sér maður á hinum samræmda texta.
Nú er ein slík herferð í gangi gagnvart þingmönnum. Með skipulegum hætti hleðst inn á netföng okkar áskorun um að lækkuð verði skattlagning á bjór. " Hið opinbera tekur til sín að meðaltali 75% smásöluverðs bjórs hjá ÁTVR í formi ýmissa skatta," segir í hinum samræmda texta. Og síðan kveður við gamalkunnugt stef um neyslustýringu: " Jafnframt biðjum við þess að staldrað verði við í þeirra þróun að reyna að stýra neyslu og lífsstíl fólks í gegnum skatta, boð og bönn."
Það er nú það. Við reynum vissulega að stýra mjólk og gulrótarsafa ofan í börnin okkar fremur en kók og pepsí. Ef ekki væri fyrir neyslustýringu væru síðarnefndu drykkirnir miklu ódýrari en hinir fyrrnefndu. En þetta gerum við og finnst flestum ágætt. Það finnst mér alla vega. Þannig að í grundvallaratriðum get ég ekki tekið undir sjónarmið bjórsamtakanna. Það breytir því ekki að verðugt er að ræða skattlagnigu á bjór sem aðrar vörur á boðstólum í verslunum landsins. Og vel að merkja, inn í allar verslanir landsins vilja menn koma áfenginu. Allt þetta könnumst við vel við úr samræmdri pólitískri hugsjónabaráttu markaðshyggjufólks.