Baráttufánann að húni
Ávarp á fundi í Íslensku óperunni 08.05.2003
Góðir samherjar og vinir.
Prófessor í lögum við Háskóla Íslands tjáði sig í morgun. Það sem var óvenjulegt var að hann tjáði sig á bréfsefni frá LÍÚ. Hann vitnaði í íslenska dómstóla og Mannréttindadómstól Evrópu. Sigurður Líndal prófessor var að taka upp hanskann fyrir forstjóra útgerðarfyrirtækis sem hafði varað starfsmenn fytrirtækis síns við því að kjósa andstæðinga ríkisstjórnarinnar í komandi Alþingiskosningum.
Forstjóri fyrirtækisins sem Sigurður Líndal kvaðst vera að verja á grundvelli mannréttinda var sami forstjórinn og knúði það fram að þingmanni Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs Árna Steinari Jóhannssyni var vikið frá sem aðalræðumanni á Sjómannadaginn á Akureyri í fyrra. Hann óttaðist að Árni Steinar myndi beita málfrelsi sínu á óþægilegan hátt fyrir eigendur útgerðarinnar. Og í framhaldinu voru látin boð út ganga að hvorki ÚA né Samherji myndu styrkja hátíðahöld sjómanna með þann mann í ræðustól.
Um daginn hélt Vinnuveitendasambandið – eða Samtök atvinnulífsins eins og það kallar sig nú - aðalfund sinn. Nýr formaður var kjörinn. Hann tjáði sig um samfélagið og kvaðst vilja beina sjónum að brotalömunum. Þess vegna vildi Ingimundur Sigurpálsson tala um kaupmátt. Hann hefði aukist of mikið. Svo var að skilja að það væri helst hjá strætisvagnastjórum, sjúkraliðum, kennurum og verkamönnum. Menn yrðu að sýna raunsæi í kjarasamningum sagði þessi forsvarsmaður atvinnurekanda, ekki mætti rugga þjóðarskútunni.
Og hinn nýkjörni formaður fór yfir sviðið.
Á því sviði var enga tugmilljóna bónussamninga að finna, þar stóðu engir milljarðamæringar, hvergi voru í augsýn samningar um helmingaskipti eða kvótabrask.
Sú krafa var hins vegar sett fram af mikilli innlifun að lífsnauðsyn bæri til að skera niður framlög til samneyslunnar með skattalækkunum.
Í pólitíkinni erum við að undanförnu búin að fara í gegnum þessa umræðu.
Við vitum sem er, að fyrirheit um skattalækkanir ber ekki einvörðungu að líta sem loforð; fyrirheitin eru jafnframt hótanir um niðurskurð og gjaldtöku.
Þannig að þegar dæmið er gert upp verður okkur ljóst að aldrei var hægt að efna öll fínu kosningaloforðin um uppbygggingu í heilbrigðismálum, til menntamála, í rannsóknir, til að bæta stöðu fatlaðra, atvinnulausra eða annarra sem nú þurfa á kjarabótum að halda.
En þrátt fyrir þessi loforð út í loftið þá er – alla vega í orði kveðnu – komið á dagskrá að bæta kjör öryrkja. Framsókn gekk frá samningi við Öyrkjabandalagið fyrir fáeinum vikum. Það á að vísu ekki að koma til framkvæmda fyrr en á næsta kjörtímabili – en látum það vera – það er framfaraspor og við fögnum öllum framfarasporum.
Við skulum ekki gleyma því að þau hafa verið tekin mörg síðustu hundrað árin. Það er hollt að horfa til baka og skyggnast um í samfélagi fyrri tíma. Í upphafi síðustu aldar sjáum við þjóðfélag án vökulaga, án kosningaréttar, án almennrar skólagöngu. Heilsugæslan var frumstæð, þjónusta við ellilífeyrisþega, fatlaða eða þroskahefta var engin. Lífeyrisréttindi engin. Námslán engin.
Allt þetta er breytt.
Hvernig skyldi það hafa gerst – halda menn að það hafi gerst án baráttu – að kollegar Sigurðar Líndals frá fyrri tíð hafi skrifað álitsgerð um mannréttindi húsnæðilsausra eða atvinnulausra - eða félagar Ingimundar í Vinnuveitandasambandinu hafi barið í borðið og heimtað meiri jöfnuð?
Nei, þessi barátta var borin uppi af verkalýðshreyfingu og róttækum stjórnmálaöflum. Þau ruddu brautina. Og þau höguðu ekki seglum eftir vindi. Þau klufu ölduna og börðust fyrir framförum og gegn misrétti, gegn valdníðslu og gegn kúgun. Ég sagði gegn – misrétti – þau voru á móti valdníðslu. Á sama hátt var talað um þau eins og okkur nú.
Það er stundum sagt af andstæðingum okkar að við vinstri grænir séum á móti öllu, sama hvaða tillögur eru bornar upp, VG er alltaf á móti.
En þá gleymist að ræða innihaldið. Og hverjar eru tillögurnar sem við erum á móti með svo eftirminnilegum hætti að stjórnarherrarnir eiga erfitt með svefn?
Það á að ráðast inn í Írak og þjóð sem hefur verið stolt af því að hafa aldrei stofnað til ófriðar við aðra á að vera meðal hinna eiðsvörnu innrásarafla. Og það er rétt, við erum á móti.
Það á að eyðileggja náttúruperlur svo hægt sé að setja upp stóriðju. Það á að setja Þjórsárver undir vatn, fjármagnað með sparnaði landsmanna og vinstri grænir gera mönnum erfitt fyrir. Eru á móti.
Það á að selja heilsugæsluna og hver skyldi vera á móti? Enn og aftur er þetta neikvæða lið í vinstri grænum. Þeir eru á móti öllu.
Það átti að minnka kostnað við öryrkja, sem voru sagðir vera að sliga ríkissjóð, en það reyndist ómögulegt vegna baráttu þeirra sjálfra og andspyrnu vinstri grænna. Nei og aftur nei, alltaf á móti.
En hvað vilja þessir vinstri grænu?
Þeir vilja örugga og góða heilsugæslu, sem er greidd úr sameiginlegum sjóðum. Vinstri grænir vilja að hver sem er geti fengið bót meina sinna, burtséð frá efnahag, burtséð frá tengslum, burtséð frá öllu og öllu.
Þessu eru hinir á móti.
Vinstri grænir vilja öflugt og réttlátt menntakerfi, þannig að allir hafi möguleika til að mennta sig án tillits til efnahags; betra námslánakerfi.
Þessu eru hinir á móti.
Vinstri grænir vilja virkja framtak fólksins í landinu til að byggja upp atvinnulífið, með sem minnstum afskiptum ríkisins. Þessu eru allir hinir á móti, þeir eru fulltrúar ríkisreksturs, vinargreiðakerfis og miðstýrðra ákvarðana á öllum sviðum.
Vinstri grænir vilja hlutleysi í hermálum. Þessu eru allir hinir á móti og geta varla beðið eftir næsta stríði til að sanna tryggð okkar við Bandaríkin, - næst sendum við kannski Landhelgisgæsluna á vettvang – með Björn Bjarnason í stafni.
Förum aðeins yfir síðasta kjörtímabil og sjáum fyrir okkur íslenskt þjóðfélag án Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs: Í því þjóðfélagi væru Þjórsárver undir vatni, Landspítalinn orðinn hlutafélag og engir öryrkjar til. Eflaust má skilgreina þá niður í agnarsmáan hóp. Til þess er einföld leið og hún er að lengja biðraðirnar hjá Mæðrastyrksnefnd.
En fyrirgefið að ég leyfi mér að spyrja: Hver treystir Samfylkingunni fyrir samhjálpinni; flokki sem ætlar að rýra tekjur ríkissjóðs um 15 þúsund milljónir.
Við höfum háð varnarbaráttu við skelfilega heimskulega pólitík ríkisstjórnarinnar og oft verið ein í stjórnarandstöðunni. En við höfum líka unnið mörg mál, komið í veg fyrir ýmis skemmdarverk og dregið broddinn úr mörgum atlögum sem gerðar hafa verið að sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar.
Við höfum haft áhrif og áhrif eru völd. Það er lítils virði að komast að í valdastólum ef stefnan er óskýr og áhrifin í þjóðfélaginu engin. Þar er Framsóknarflokkurinn besta dæmið og því miður Samfylkingin einnig.
Áhersla þessara flokka á völdin ein, veldur því að þeirra bíða örlög hentistefnuflokka, sem engu máli skipta í hinni þjóðfélagslegu umræðu.
Og ekki hjálpa þeir lýðræðinu, þar sem kjósandinn er engu nær um hvað hann fær eftir kosningar. Það er auglýst af krafti um trúverðugleik, leiðtogahæfileika, einsog kosningar í lýðræðisþjóðafélagi séu einskonar atvinnuviðtöl. Er tilgangurinn þá sá einn að ná í völd án áforma?
Vinstrihreyfingin grænt framboð er flokkur um lífsskoðanir, ekki um foringja og ekki um fjáraustur eða um auglýsingastrategíu. Auðvitað viljum við vera í ríkisstjórn, en þá til þess að tryggja að lífsskoðanir þeirra sem við erum fulltrúar fyrir komist til skila við stjórn landsins. En við erum ekki háð völdum einsog valdaflokkarnir sem standa og falla með því hversu duglegir þeir eru að halda sér í ríkisstjórn.
Áhrif okkar eru meiri en stöðugildin í stjórnarráðinu gefa til kynna. Áhrif standa lengi en völdin stutt. Og meðan við stöndum vaktina og vegur okkar vex hægt og bítandi í þjóðfélaginu, þá þurfum við og skoðanasystkini okkar ekki að óttast. Sú vissa að án okkar væri þetta þjóðfélag allt annað og mun verra, það eru okkar verkalaun.
En það eru líka til önnur verkalaun – og það er að finna til samstöðunnar – við skulum ekki reiðast félögum okkar úr baráttunni sem nú birtast undir nýjum merkjum á auglýsingasíðum dagblaðanna. Við skulum miklu fremur gleðjast yfir því að við skulum standa saman
Og það er gott að fá áminninguna frá útgerðarmönnum sem vilja afnema skoðanafrelsið, skrúfa söguna aftur um eitt hundrað ár – þegar þeir gátu ráðskast með fólk.
Og það er okkur einnig mikilvægt að heyra frá formanni atvinnurekenda býsnast yfir launum sjúkraliðans – það er þörf áminning um mikilvægi okkar baráttu.
Við ætlum að halda fram á veginn ótrauð – ekkert fær slegið okkur út af laginu – engar skoðanakannanir – hvort sem þær gefa okkur 1 prósent – 10 eða 20 þá höldum við galvösk fram á veginn.
Trúverðugleiki er ekki eitthvað sem maður segist hafa, það er nokkuð sem maður vinnur sér inn. Lífsskoðun fæst ekki með því að stúdera skoðanakannanir, samviska fæst ekki með málefnavinnu. Leikgleði fæst ekki með því að leigja auglýsingastofu.
Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði höfum látið andstæðinga okkar svitna í baráttunni og munum halda því áfram. Við verðum aldrei sigruð og trúverðugleiki okkar mun aukast jafnt og þétt. Lífsskoðanir okkar gefa okkur kraftinn til baráttu og gera herklæðin að léttum sumarfatnaði. Samviska okkar er góð og leikgleðin mikil. Hvert atkvæði er vinningur bæði fyrir VG og íslensku þjóðina.
Góðir samherjar. Við erum á lokasprettinum. Gleymum öllum skoðanakönnunum. Það á eftir að kjósa. Fyrir síðustu kosningar mældumst við með minna en við gerum nú. En síðan reis landið – á síðustu metrunum – því við gáfumst ekki upp-við gefumst aldrei upp
Nú drögum við baráttufána að húni og söfnum liði til sigurs fyrir okkar málstað.
Við vitum að ekkert fær stöðvað fólk sem á baráttuanda í brjósti.
Fram til baráttu.
Fram til sigurs fyrir góðan málstað.