BETRA ER MIKIÐ AF LITLU EN MEST AF MIKLU
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 24/25.11.18.
Enginn sérfræðingur er ég um knattspyrnu. En ég kann þó að gleðjast þegar strákarnir okkar og stelpurnar okkar gera það gott. Reyndar held ég líka með þeim þegar verr gengur. Lífið er þannig að enginn getur ætlast til velgengni alltaf og öllum stundum.
En samt er nú hægt að gera sitthvað sem gerir velgengni líklegri en ella. Sum heilræði hafa geymst í viskusafni kynslóðanna um hvernig vænlegt sé að haga málum í þessu skyni, t.d. að sníða sér stakk eftir vexti. Þetta þýðir væntanlega að þótt við vöxum og döfnum þá beri okkur á hverjum tíma að meta raunsætt hvers við erum megnug og ætla okkur samkvæmt því.
Þannig er mér sagt af kunnáttumönnum að í fótboltanum hafi karlalandsliðinu farið að vegna vel þegar þjálfararnir tóku að leggja áherslu á vörnina, að leika varnarleik, ætla sér ekki um of í sókn en þeim mun meira í vörn og síðan sókn eftir atvikum. Þetta gæti verið ein útlegging á því að sníða sér stakk eftir vexti.
Allt þetta kemur upp í hugann þegar landið og framtíðin eru annars vegar, hvaða markmið við setjum okkur. Ég hef margoft sagt að mér finnist ferðamennska að ýmsu leyti eftirsóknarverð og hef ég fært rök fyrir því. En þá jafnframt nefnt það sem ómissandi er að sagt sé í framhaldinu, nefnilega að allt sé best í hófi.
En ekki kunna sér allir hóf. Wow flugfélagið gaf upp öndina á dögunum sem kunnugt er og er dánarorsök sú að þrátt fyrir augljósa erfiðleika vegna ofvaxtar þá var einmitt við vaxtarverkina jafnan gefið enn betur í þar til öndin gaf sig.
En það er nú ekki svo einfalt að til standi að hið andaða félag leggist í gröfina. Nú hefst nýtt líf, er okkur sagt.
Icelandair, sem gleypti þennan samkeppnisfjandvin sinn, lýsir yfir því að nú megi einmitt eygja “gríðarlega vaxtarmöguleika”! Ekki nóg með það. Talsmenn Leifsstöðvar, Isavia, ganga enn lengra og staðhæfa á forsíðum blaðanna að við stöndum frammi fyrir “sögulegu” stórtækifæri, tímamótum!
Og hvert er svo hið sögulega tækifæri? Það er að Ísland verði miðstöð flugsamgangna á norðurhveli jarðar! En er það endilega þetta sem við viljum? Var þetta ekki einmitt draumurinn og jafnframt dauðaorsök Wow?
Þeir sem fara með fjármagn og völd – auðvald – verða að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni. Oft(ast) skortir þar nokkuð á. “Stækkum Leifsstöð í snarhasti”, gellur nú við. Það kallar á tvö hundruð ný störf, eða voru þau tvö þúsund? Það þýðir tvö þúsund nýjar íbúðir fyrir aðkomufólk, stóraukna útlenskukennsla í skólum og skyndiálag á alla innviði. Með öðrum orðum, ákvarðanir auðvaldsins um að nýta hin sögulegu tækifæri leiða af sér skyldur á herðar almannavaldsins, sem er ekkert endilega þess fýsandi að axla hinar heimssögulegu draumsýnir.
Þarf ekki að hugsa svoldinn varnarleik í bland? Fyrir landið, innviðina, tunguna og mannréttindi aðkomufólks sem við þurfum að hlúa vel að. Því framar öllu ætlum við að passa upp á náttúru Íslands og að hér verði réttlátt og gott samfélag fyrir alla.
Gæti verið betra fyrir þrjú hundruð þúsund manna þjóð í viðkvæmu landi að fara hægt og hóflega í sakirnar, sníða sér stakk eftir vexti og hafa mikið af litlu en alls ekki mest af miklu?
Ég hallast að því.