BHMR uppgötvar hjólið
Í desemberhefti BHMR tíðinda birtast afar: „Athyglisverðar tölur um ævitekjur hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða.“ Endursögn á þessum „athyglisverða“ greinarstúf birtist svo í Morgunblaðinu 22. desember sl.
Samanburður þessi var gerður af vinnuhópi á kjaramálaráðstefnu sem BHMR hélt á Flúðum í nóvember um svipað leyti og sjúkraliðar hófu verkfall sitt. Þar sem sjúkraliðar hafa fengið ótal baráttukveðjur frá BHMR og aðildarfélögum þess hlýtur samanburður þessi að hafa verið gerður til þess að styðja við bak þessa láglaunahóps sem á nú í baráttu við óvinveitt ríkisvald. Manni bregður því í brún þegar þessar „athyglisverðu tölur“ eru skoðaðar. Munurinn á tekjum hjúkrunarfræðinga, sem fengu verulega kauphækkun sl. vor, og sjúkraliða, sem hafa verið með lausa samninga í nær tvö ár, er samkvæmt þessum tölum svo til enginn. Hjúkrunarfræðingar hafa þá væntanlega verið langt undir sjúkraliðum í tekjum áður en þeir fengu leiðréttingu launa sl. vor.
Hvernig ætli standi á því? BHMR uppgötvar hjólið og kemst að þeirri niðurstöðu að ef ævitekjur þessara tveggja stétta séu bornar saman, og dregnar séu inn í þá útreikninga breytur sem þeim þóknast og öðrum sleppt, verði munurinn sáralítill. Fyrir utan sjálf taxtalaunin eru forsendur þessar staðgreiðsla skatta, sem er hærri hjá hjúkrunarfræðingum eðli málsins samkvæmt þar sem þeir hafa 20% hærri laun en sjúkraliðar samkvæmt útreikningum BHMR. Hitt atriðið, sem tekið er tillit til í þessum útreikningum, er endurgreiðsla námslána, sem hjúkrunarfræðingar greiða en sjúkraliðar ekki, þar sem þeir eiga ekki kost á námslánum með 1% vöxtum. Þetta er ekki allskostar rétt því sjúkraliðar eiga rétt á námsláni hluta af námstímanum.
Þá reiknast BHMR til að sjúkraliðar starfi sex árum lengur en hjúkrunarfræðingar, þar sem þeir hefji störf 18 ára en hjúkrunarfræðingar 24 ára. Þetta er afar hæpin forsenda því sjúkraliðar og hjúkrunarfræðingar hefja störf á öllum aldri. 18 ára aldurstakmarkið, sem BHMR setur sjúkraliðum, stenst heldur ekki þar sem sjúkraliðar verða að hafa lokið prófi frá námsbraut fyrir sjúkraliða í fjölbrautaskóla, sem flestir gera um tvítugt en margir seinna.
Með þessum samanburði er BHMR að reikna nám sem tekjutap, vegna þess að námsárunum sé betur varið í lífsbaráttuna á vinnumarkaðinum en að afla sér menntunar á því sviði sem áhuginn stendur til. Það eru ,athyglisverð" rök hjá því langskólagengna fólki sem sótti kjaramálaráðstefnuna á Flúðum. Fram til þessa hefur verið talað um nám sem réttindi og Lánasjóð íslenskra námsmanna sem tæki til þess að jafna rétt fólks til náms. Samkvæmt skilgreiningu BHMR er menntun og lánasjóður hvort tveggja verkfæri til að skerða kjör fólks.
Taxtalaun eru almennt of lág á Íslandi og á það að vera sameiginlegt verkefni samtaka launafólks að fá úr þessu bætt. BSRB hefur lagt höfuðáherslu á sem mesta kjarajöfnun og hafnað launastefnu sem felur í sér úrbætur einvörðungu fyrir þá sem skárri hafa launin en lokar á hina.
Ef til vill er „athyglisverðast“ af öllu við þessa útreikninga í BHMR blaðinu að þeim skuli skellt á jólaborðið núna af sömu aðilum og í orði segjast styðja sjúkraliða heilshugar. Okkur hinum finnst þetta ekki góð sending til láglaunafólks sem staðið hefur í sex vikna verkfallsbaráttu sem enn sér ekki fyrir endann á.