Bifröst og Háskólinn í Reykjavík kynna kröfugerð
Birtist í Morgunblaðinu 15.06.2003
Hvers kyns mismunun á markaðstorginu er sem eitur í beinum allra sannra markaðssinna. Litið er á slíkt sem arfleifð liðins tíma. Hlutverk hins opinbera á samkvæmt þeirra kokkabókum að einskorðast við að setja almennar reglur og greiða síðan fyrir aðkeypta þjónustu. Í þessum anda eru nú settar fram, af hálfu rektora Viðskiptaháskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík, hugmyndir um að gera Háskóla Íslands að sjálfseignarstofnun sem færa eigi yfir á torg markaðarins. Hugmyndin er sú að allir háskólar skuli sitja við sama borð gagnvart skattgreiðandanum. Komi nýir skólar fram á sjónarsviðið skuli skattpyngjurnar standa þeim opnar á sömu forsendum og þeim skólum sem fyrir eru. Formúlan gengur út á að þeir skólar sem sýni hugkvæmni og fái þar af leiðandi flesta nemendur til sín fái jafnframt mest greitt úr ríkissjóði.
Að mínu mati hefði þetta ákveðna veikleika í för með sér sem mikilvægt er að ræða í þaula áður en nokkrar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar.
Á markaðurinn að stýra allri menntun?
Í fyrsta lagi skulum við ekki gleyma því að almannasjóðir eru ekki óþrjótandi. Um langt árabil hefur fjárskortur staðið rannsóknum við Háskóla Íslands fyrir þrifum. Ef þeim fjármunum sem ætlað er til rannsókna og kennslu yrði ráðstafað samkvæmt markaðsformúlunni er hætt við að kröftunum yrði dreift og í mörgum tilvikum háir einmitt smæðin rannsókna- og öðru háskólastarfi hér á landi. Krafan um að aldrei megi mismuna jafngildir kröfu um að lýðræðislegum ákvörðunum megi aldrei beita, allt þurfi að gerast samkvæmt jafnræðisreglu markaðarins. Að sönnu má segja að í stað þess að úthluta fjármunum til stofnana yrði eftirleiðis úthlutað til verkefna. Þannig væri farin millileið á milli markaðsstýringar og stofnanahyggju. Þetta kann að hljóma sannfærandi í fyrstu en þegar málin eru krufin kemur annað í ljós. M.a. gæti þetta átt við um sum verkefni en ekki önnur og það kann að vera rétt að smám saman færist landamerkin til. Það þýðir ekki að þau færist öll í einni svipan.
Þegar lengi hefur verið unnið að tilteknum verkefnum tekur starfsemin á sig mynd stofnunar. Þar starfar fólk, þar myndast þekking og hefðir sem kunna að hafa gildi í sjálfu sér. Þetta hefur verið styrkur háskólasamfélagsins í hinum vestræna heimi og er mikils um vert að varðveita hann. Ný lög um vísindarannsóknir auka vægi stjórnmálamanna verulega við alla ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármuna til vísindarannsókna. Þegar saman koma þessi nýja hugsun um styrkveitingar vegna verkefna og pólitískar ákvarðanir um styrkveitingar er hætt við því að þessi eldri akademíska hefð komi til með að eiga undir högg að sækja. Mín skoðun er sú að mikið sé gefandi fyrir sjálfstæði vísindastofnana. Af þeim sökum hef ég haft ákveðnar efasemdir um þá braut sem við erum smám saman að halda út á.
Sjálfkrafa í vasa skattgreiðenda?
Nú vil ég taka það skýrt fram að sveigjanleiki þarf að vera fyrir hendi í mennta- og vísindaumhverfinu. Nýjar stofnanir þurfa að fá svigrúm til að fæðast og ekki mæli ég gegn því að þær fái samfélagslegan stuðning. En hvernig á að draga línurnar? Eiga nýjar stofnanir sjálfkrafa að öðlast sjálftökurétt á skattfé almennings? Eiga stofnanir sem reknar eru fyrir styrktarfé frá fyrirtækjum að sitja við sama borð og stofnanir á borð við Háskóla Íslands gagnvart ríkissjóði? Er ekki hætt við að með því móti muni þær smám saman þröngva Háskóla Íslands inn á þá braut að sækja styrki úr atvinnulífinu fyrir kennslu og rannsóknir á öllum sviðum eða taka skólagjöld? Ef allir fá sama framlag úr ríkissjóði og einkaskólarnir að auki stuðning frá fyrirtækjum og skólagjöld frá nemendum, þá segir það sig sjálft að samkeppnisstaða Háskóla Íslands yrði mun verri en hinna skólanna. Varla vill HÍ að sinn hlutur verði minni en þessara nýrri skóla? Sú hætta er því mjög raunveruleg að krafa rektora Háskóla Reykjavíkur og Bifrastar muni í reynd leiða okkur inn í þessa kerfisbreytingu. Og fylgifiskarnir yrðu ófáir. Við skulum til dæmis ekki gleyma því að rannsóknir sem við teljum öll mikilvægar eru ekki endilega vinsælar og myndu þar af leiðandi ekki draga mikið skattfé inn í menntastofnanirnar samkvæmt höfðatölureglu markaðssinna.
Byggjum upp en brjótum ekki niður
Talsmenn Háskólans í Reykjavík hafa verið ákafir talsmenn markaðsvæðingar og ég fæ ekki betur séð en hugmyndir rektors Viðskiptaháskólans á Bifröst um að gera Háskóla Íslands að sjálfseignarstofnun sé af þessum toga. Ég ætla að leyfa mér að vara við þeirri einstefnu sem mér þykir einkenna þennan málflutning og benda jafnframt á að til kunna að vera millivegir, málamiðlanir sem flestir gætu sætt sig við. Þá horfi ég til greiðslufyrirkomulags sem annars vegar stuðli að sveigjanleika og fjölbreytileika en tefldi þó ekki í tvísýnu tilverugrunni þeirra rannsóknar- og menntastofnana sem við eigum og höfum byggt upp í landinu. Í þessu samhengi má nefna að á Norðurlöndum mun það sums staðar tíðkast að skólar sem njóta skólagjalda eða styrkja úr atvinnulífinu fá hlutfallslega minna úr pyngju skattborgarans en þær stofnanir sem samfélagið tók ákvörðun um að koma á laggrinar. Þetta fyrirkomulag tryggir sveigjanleika – hægt er að koma nýjum stofnunum á fót en varðveita um leið þann mikilvæga rétt samfélagsins að starfrækja óháðar mennta- og rannsóknarstofnanir sem ekki eru skipulagðar eingöngu á grundvelli markaðssjónarmiða, stofnanir þar sem starfsmenn hafa m.a. ákveðnar skyldur gagnvart samfélaginu og skoðana- og tjáningarfrelsi um sérfræði sín sem visst atvinnuöryggi veitir. Þetta er í mínum huga grundvallaratriði. Það má alls ekki gerast að "réttindabarátta" einkaskólanna verði til þess að draga tennurnar úr þeim opinberu stofnunum sem fyrir eru. Ef sú yrði raunin mundu einkaskólarnir setja standardinn niður en ekki upp. Rektorarnir telja sig hafa dottið niður á hina einu réttu lausn, hið rétta rekstrarform. Þeir virðast hafa gleymt því að flest kerfi hafa bæði kosti og galla. Þeir einblína of ákveðið á kosti eins kerfis og galla hins.
Rektorar um lýðræði og starfskjör
Reyndar vakti það furðu mína að rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst skyldi við útskrift nú á dögunum nota tækifærið til þess að gera atlögu að réttindum opinberra starfsmanna. Í Morgunblaðinu 1. júní sl. er haft eftir Runólfi Ágústssyni að stjórnkerfi og lagarammi ríkisháskóla væri ósveigjanlegur og kemur fram í blaðinu að þar sé vísað í réttindi launafólks. "Réttindi og skyldur opinberra starfsmanna séu þar til að mynda nær ókleif hindrun" hefur Morgunblaðið eftir rektor Viðskiptaháskólans.
Ekki var tónnninn í rektor Háskólans í Reykjavík betri. Guðfinna S. Bjarnadóttir talaði af megnri fyrirlitningu um atvinnulýðræði í brautskráningarræðu sem vitnað var til í Morgunblaðinu 2. júní: " Munduð þið einhvern tímann láta starfsmenn fyrirtækisins kjósa um framkvæmdastjóra eða forstjóra, líkt og gert er í gamla fyrirkomulaginu gagnvart rektorum? Þá á rektor vald sitt undir undirmönnum sínum og þetta er ekki rekstrarform sem samræmist nútímalegum vinnubrögðum."
Sannast sagna finnst mér þessar yfirlýsingar rektoranna tveggja, annars vegar árás á réttindi launafólks og hins vegar lítilsvirðandi tal um lýðræði, bera vott um afturhaldssöm sjónarmið en ekki þá víðsýni og framfarahyggju sem ég held að við flest væntum að heyra frá menntastofnunum sem vilja láta taka sig alvarlega.
Afturhaldssöm sjónarmið
Í mínum huga er ekkert nútímalegt við þá forstjóra- og valdboðshyggju sem Guðfinna S. Bjarnadóttir talar fyrir. Þá er mikilvægt að heyra Runólf Ágústsson útlista fyrir okkur hvaða réttindi hann vill hafa af opinberum starfsmönnum. Eru það lífeyrisréttindi eða veikindaréttur, eða atvinnuöryggið, sem er þó minna nú í háskólaumhverfinu en áður var? Að lokum vil ég leggja áherslu á að brýnt er að fram fari kröftug umræða um greiðslufyrirkomulag til menntastofnana í landinu. Sú ríkisstjórn sem hér ræður hefur sýnt að hún er mjög höll undir sjónarmið rektoranna tveggja. Hins vegar hef ég efasemdir um að fyrir þeim kerfisbreytingum sem þeir hvetja til sé meirihlutavilji í landinu.