Fara í efni

BJARNI OG BENEDIKT, NOKKRAR STAÐHÆFINGAR OG EIN SPURNING

Bjarni og Benedikt 2
Bjarni og Benedikt 2

Í Silfrinu í Sjónvarpinu um helgina var á meðal annars rætt um nýútkomna rannsóknarskýrslu Alþingis um einkavæðingu Búnaðarbankans og svikamylluna sem tengist íslenskum kaupendum og þýska bankanum Hauck und Afhäuser.

Ég tók þátt í þessum umræðum og tengdi þessa 15 ára gömlu einkavæðingu á forvera Arion banka við aðkomu vogunarsjóða að eignarhaldi á bankanum í dag.

Tíu atriði nefni ég í því sambandi þótt ekki kæmi ég þeim öllum að í þættinum:

1) Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, hafa báðir lýst fögnuði yfir fréttum af því að vogunarsjóðir vilji eignast Arion banka. 


2) Ráðherrarnir tveir segja að sjóðirnir séu hliðhollir Íslandi og færi meiri peninga inn í fjármálakerfi landsins en dæmi eru um.
 Þannig segir Bjarni Benediktsson það vera ánægjulegar fréttir að "erlendir aðilar skuli koma með fjármagn til landsins og fjárfesta í íslenskum banka..." og bætti við að þetta væri "einhver stærsta fjárfesting erlendis frá í íslensku fjármálakerfi fyrr og síðar." 
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, sagði þetta að þetta væri mikil "viðurkenning" fyrir Ísland. Vissulega séu þetta vogunarsjóðir en núna "veðja þeir með Íslandi en ekki á móti."
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/19/vedja_nu_med_islandi_en_ekki_a_moti/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/19/timamot_i_uppgjori_vid_bankahrunid/

Raunin virðist þó sú að hér séu vogunarsjóðirnir að reyna að losa fjármuni úr landi (sbr. yfirlýst markmið, sjá lið 7 hér að neðan), frekar en að koma með þá. Í umfjöllun Morgunblaðsins eru getgátur um að með því að selja Arion banka til sjálfs sín séu þeir að undirbúa að losa um jafnvirði ríflega 81 milljarðs króna til sín: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/22/salan_losar_milljardatugi/

Því næst gætu vogunarsjóðirnir tekið 70 ma.kr. út í arði með því að endurskipuleggja fjármagnsskipan Arion banka, skv. Viðskiptablaðinu. http://www.vb.is/frettir/geta-greitt-ser-70-milljarda/136688/

3) Vogunarsjóðirnir sem um ræðir, Taconic og Och-Ziff Capital Management Group, eru nátengdir hver öðrum í tvennum skilningi: a) Eigendur og stjórnendur síðarnefndu sjóðanna voru áður starfandi hjá Goldman Sachs, b) allir komu þeir til Íslands að fjárfesta í föllnum bönkum um sama leyti árið 2013, þá keyptu þeir kröfur af öðrum hrægömmum sem voru fyrir á fleti.

4) Takist sjóðunum að komast framhjá FME og fá lífeyrissjóði með sér í kaupin eru þeir á grænni grein. Ella eignast ríkið bankann í árslok 2018 samkvæmt stöðugleikasamkomulagi. Aðkoma lífeyrissjóðanna nú væri þannig til að hjálpa vogunarfjármagninu. "Kaupþing þarf að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Takist það ekki mun ríkissjóður leysa bankann til sín"https://kjarninn.is/frettir/2016-08-26-gera-rad-fyrir-thvi-ad-arion-verdi-seldur-ad-fullu-fyrir-arslok-2017/

5) Til að komast framhjá Fjármálaeftirlitnu skipta vogunarsjóðirnir liði þannig að enginn öðlast stærri hlut í bankanum við kaupin  en 9,99% en reglan er sú að fari eignarhlutur yfir tíu prósent kviknar eftirlitsskyldan.

Í ljósi aðkomu Hauck und Afhäuser að Búnaðarbankasölunni á sínum tíma, vakna eðlilega spurningar um hvort Goldman Sachs, sem tekur að sér 2,6% hlut, sé bréfberi - haldi aðeins á bréfunum en beri enga fjárhagslega áhættu - fyrir t.d. Taconic sem kaupir 9,99% hlut, rétt undir viðmiði um eftirlitsskyldu FME.

 6) Fyrrnefndir sjóðir hafa vafasaman og jafnvel glæpsamlegan feril að baki. Off-Ziff (sem vill eignast 6,6% prósent hlut í Arion banka) hefur þannig þurft að greiða 47 milljarða í sektir fyrir stórfelldar mútur í fimm ríkjum Afríku. Goldman Sachs laug Grikki inn á Evrusvæðið með falsskýrslum fyrir þóknun og varð þess eining valdandi að Socialistisk Folkeparti gekk út úr samsteypustjórn með Socíaldemókrötum í Danmörku fyrir nokkrum árum þegar hinir síðarnefndu fengu því framgengt að selja Goldman Sachs hlut í ríkisorkufyrirtækinu DONG. Kaupin þóttu hneyskalang, ekki síst vegna kaupandans. 

Goldman Sachs og Grikkland:
http://www.independent.co.uk/news/world/europe/greek-debt-crisis-goldman-sachs-could-be-sued-for-helping-country-hide-debts-when-it-joined-euro-10381926.html
 Goldman Sachs og Danmörk:
https://www.bloomberg.com/news/articles/2014-02-06/in-denmark-goldman-sachs-deal-ignites-political-crisis

7) Fjárfestarnir eru ekki komnir til Íslands til að færa íslensku fjármálakerfi peninga heldur til að flytja penniga frá Íslandi!!!  Þeir eru enda vogunarsjóðir og skilgreina sig sem slíka, fara ekki í felur með að þeir elta stundarhagsmuni , eru "opportunistic" eins og segir á heimasíðum þeirra. 
https://www.taconiccap.com/about/http://www.ozcap.com/our_firm/index

8) Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar Ísland við þessum aðilum; segir að við eigum að "fara okkur hægt", leita eftir langtímafjárfestum, íhaldsömum, "conservative" fjárfestum með langtímahagsmuni Íslands að leiðarljósi! Skilur fyrr en skellur í tönnum!
AGS álit: https://www.imf.org/en/News/Articles/2017/03/28/mcs032817-iceland-staff-concluding-statement-of-the-2017-article-iv-mission

9) Forsætisráðherra Íslands og fjármálaráðherra Íslands eru báðir harðlínu hægri menn og hafa báðir tengsl inn í heima fjármálabrasksins. Þeir vilja ekki að ríkið eigi banka og eru augljóslega staðráðnir í því að nota völd sín til að koma í veg fyrir það.

10) Í ljósi yfirlýsinga forsætisráðherra og fjármálaráðherra og síðan þess sem hér hefur verið rakið er nú spurt:  Hvort setja Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson ofar, hagsmuni fjármagnsbraskara og  fylgispekt við hægri sinnaða hugmyndafræði eða þjóðarhag?

Silfrið:  http://ruv.is/sarpurinn/ruv/silfrid/20170402
SILFRIÐ