Björn Bjarnason setur heimsmet
Birtist í Fréttablaðinu 24.07. 2003
Björn Bjarnason stýrir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem kunnugt er. Ekki veit ég hvernig verkaskipting er innandyra í ráðuneytinu, en ég gef mér að hermálin, ef til kæmi, yrðu dómsmálaráðuneytismegin. Fyrirgefning syndanna myndi hins vegar að öllum líkindum falla undir kirkjumál. Á báðum sviðunum hefur Björn látið til sín taka að undanförnu. Hann vill stofna íslenskan her með myndarlegu aðalliði og yfir tuttugu þúsund manna varaliði. Hinn þátturinn í málatilbúnaði Björns, sem varðar syndaaflausnina, snýr að samráði olíufélaganna um olíuverð.
Ránsfengnum skipt
Félögin létu í veðri vaka að þau stæðu í grimmri samkeppni og tækjust á í útboðum þegar raunveruleikinn var sá, að samið var á bak við tjöldin um hver ætti að koma með hagstæðasta tilboðið og síðan var gróðanum bróðurlega skipt. Nær væri reyndar að tala um ránsfeng og skiptingu á honum. Þetta er svo ótrúleg óskammfeilni að menn rekur í rogastans – verða nánast orðlausir. Það á hins vegar ekki við um Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra. Skýring Björns á svikamyllu olíufélaganna er sú, að flest, sem henni tengist, sé runnið undan rifjum Sovétríkjanna sálugu. Fréttablaðið var svo vinsamlegt að veita okkur innsýn í fréttaskýringar Björns Bjarnasonar fyrr í vikunni en þær geta menn síðan kynnt sér nánar á heimasíðu hans. Þar segir meðal annars að olíufélögin séu nú "að súpa seyðið af því, að hafa ekki á markvissan og skipulegan hátt horfið frá viðskiptaháttum Sovéttímans í íslenskum olíuviðskiptum." Þar höfum við það.
Fórnarlömbum Sovétkerfisins verði fyrirgefið
Forstjórarnir í olíufélögunum og hjálparhellur þeirra eru sem sagt fórnarlömb Sovétríkjanna sálugu og eins og við vitum ber að fyrirgefa öllum þeim sem ekki eru sjálfráðir gjörða sinna. Eitthvað vefst þetta þó fyrir ráðherranum því hann veltir vöngum og finnst "undarlegt að áhrif hruns Sovétríkjanna á íslenskt efnahags- og atvinnulíf skuli hafa ekki orðið meiri en varð á sínum tíma." Það er vissulega undarlegt. Ætli menn hafi ekki hreinlega gleymt að segja þeim hjá Skeljungi og Olíufélaginu frá falli Sovétríkjanna? Getur annars verið að menn vilji láta taka svona málflutning alvarlega? Meinar Björn Bjarnason þetta virkilega? Ef hann gerir það þá leikur enginn vafi á að hann hefur sett heimsmet í nýstárlegum söguskýringum. Þótt samið hafi verið sameiginlega um innkaup á olíu til landsins fyrr á tíð þá er ekki þar með sagt að hægt sé að setja samasem merki á milli þess og þeirra blekkinga sem hér hafa greinilega verið stundaðar af skipulegri yfirvegun og nákvæmni. Í rauninni ætti að biðja alla þá afsökunar sem dylgjað er um á þennan hátt.
Spillingin varð til hér á landi
Hinn pólitíski lærdómur af þessu máli er innihaldsleysi yfirlýsinga þeirra stjórnmálamanna sem stýrt hafa þjóðfélagi okkar undanfarinn áratug eða svo. Undir því fororði að einkaaðilum einum sé treystandi fyrir fjármunum almennnigs, þá hafa almannaeignir í stórum stíl verið færðar í hendur hinna margrómuðu "einstaklinga". Og hvernig hefur tekist til? Spillingarsögurnar ætla aldrei enda að taka. En áfram er haldið og alltaf fundnar nýjar skýringar þegar nýtt svínarí kemur fram í dagsljósið, nú síðast þessi stórfenglega skýring Björns Bjarnasonar á einokunarsamsærinu; að það sé heimskommúnismanum að kenna. Hvernig skyldi dóms- og kirkjumálaráherra skýra helmingaskiptin á þjóðbönkunum þar sem flokksgæðingarnir hafa nú raðað sér á garðann? Þetta er sú spilling sem hægri sinnaðir stjórnmálamenn forðast að horfast í augu við. Staðreyndin er sú að spillingin er íslensk og búin til af Íslendingum.
Eftir fall Sovétríkjanna stálu þarlendir fjármálamenn nánast öllu steini léttara út úr efnahagskerfinu. Sagt var frá einum slíkum, Roman Abramovits, í Morgunblaðinu um daginn, þegar hann keypti enska fótboltaliðið Chelsea. Hann er 36 ára og sagður eiga 440 milljarða króna. Varla eru það vel fengnir peningar. En hvort skyldi sökin liggja hjá gömlu sameignarkerfi, eða hjá hinum, sem nú fara ránshendi um samfélagið? Samkvæmt ívitnuðum söguskýringum Björns Bjarnasonar ætti svarið að vera augljóst. Og án efa lumar kirkjumálaráðherra Íslands á söguskýringu fyrir þennan "athafnamann". Eða má ekki ætla að einnig hann hafi verið fórnarlamb Sovétkerfisins og eigi nú skilið fyrirgefningu syndanna?