Fara í efni

BJÖRN EÐA STEFÁN?

Nánast á hverjum degi eru heiminum birtar fréttir um vaxandi vígbúnað.
Nú síðast segir frá því að Bandaríkjastjórn ætli að láta smíða nýja kjarnorkukafbáta fyrir Ástrali og stendur til að smíðin fari fram í Bretlandi en tæknibúnaðurinn verði bandarískur. Þetta stóð til að innsigla á fundi þeirra Bidens Bandarikjaforseta, Sunaks forsætisráðherra Bretlands og Albanes forsætisráðherra Ástralíu í San Diego í Kaliforníu í dag.
Morgunblaðið hefur eftir breska blaðinu Times að með þessu séu Bandaríkjamenn “að styðja við tvo af helstu bandamönnum sínum” auk þess að “stórefla getu ástralska sjóhersins … á sama tíma og Kínverjum séu send skilaboð …”.
Eflaust er það rétt að Bandaríkin séu að styðja bandamenn sína en fyrst og fremst er stuðningurinn engu að síður við bandarískan vopnaiðnað sem blæs út og tútnar sem aldrei fyrr. Sjaldan hefur þessi banvæni iðnaður átt jafn ötula sendimenn og þá Biden forseta og Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ekki er þetta fyrsta framlag þeirra til “öryggismála” á Kyrrahafi á síðustu mánuðum og nægir þar að visa í stóraukna vopnasölu til Taiwan. 
Þetta nefni ég sem dæmi nánast af handahófi um framgang vígvæðingar.

Framlag sömu aðila til “friðar og öryggis” í Evrópu er á sama hátt með vígbúnaði, aðeins þannig verði Pútín stöðvaður. Þetta er viðkvæðið. Þetta endurtaka síðan stjórnendur í NATÓ-ríkjum einum rómi og eru íslensk stjórnvöld þar engin undantekning eins og þjóðin hefur fengið að kynnast – illu heilli. Eins og stundum áður er Björn Bjarnason einn skeleggasti talsmaður þessarar stefnu og hefur hann og skoðanabræður hvergi dregið af sér í skrifum að undaförnu enda varla ástæða til annars með ríkisstjórn Íslands sér einhuga að baki. Björn telur að því fleiri vopn þeim mun meiri friður.

En sem betur fer eru fleiri raddir. Stefán Karlsson birtir bréf hér á heimasíðunni nýlega þar sem hann hvetur til annarrar nálgunar og segir að kominn sé “tími til að sýna samstöðu með friði.” (Bréf Stefáns er hér: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/kominn-timi-til-ad-syna-samstodu-med-fridi )
Þá er spurningin hvor leiðin sé líklegri til þess að gera jörðina friðvænlegri, leið Björns Bjarnasonar eða leið Stefáns Karlssonar.
Ég styð leið Stefáns.