BLÁA LÓNIÐ, ICELANDAIR OG LANDSBANKINN: ÍSLAND FYRIR AUÐKÝFINGA!
Bláa Lónið hefur ævinlega heillað mig. Ótaldir eru ferðamennirnir sem ég hef farið með þangað - bæði einn og einn og svo í stórum hópum. Ég hef oftar en einu sinni staðið fyrir ráðstefnum í Bláa Lóninu þar sem aðstaða hefur verið leigð, matur keyptur og svo að sjálfsögðu farið í Lónið.
Allt hefur þetta verið eins og á að vera. Eins og best verður á kosið. Upp á síðkastið hefur þó orðið breyting til hins verra. Græðgin hefur verið að ná yfirhöndinni á kostnað hófseminnar. Prísarnir hafa stigið og það sem verra er, nú er rukkað fyrir að fara inn í salarkynnin, þar sem ég hingað til hef oft beðið eftir því að fólk komi úr baðinu góða. Að mínu mati er þarna gengið of langt í að seilast ofan í buddu okkar.
Auðugu fólki stendur hugsanlega á sama þótt ég efist um það, því öllum leiðist gráðugt fólk - líka hinum ríku. Það er yfirbragðið sem verður fráhrindandi.
Þetta er hins vegar heimur sem margir vilja fara með landið okkar inn í sbr. eftirfarandi frétt á mbl.is í dag:
"Meet in Reykjavík, Bláa lónið, Icelandair Group og Landsbankinn undirrituðu í vikunni samkomulag til þriggja ára upp á 130 milljónir um markaðssetningarátak til þess að laða auðuga ferðamenn til landsins. Samkomulagið snýst um stofnun, fjármögnun og rekstur sérverkefnis á sviði markaðssetningar á Reykjavík og Íslandi sem áfangastað fyrir lúxusferðamenn ...."
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/09/25/vilja_vel_staeda_ferdamenn/
Ferðþjónusta sem byggir á auðkýfingum er ekki endilega þjóðarávinningur. Og fari sem horfir að ferðaþjónustan sjálf verði í höndum erlendra aðila mun arðurinn streyma úr landi. Þannig sagði DV frá því í vikunni að rússneski fjárglæframaðurinn Abromovich vildi kaupa Bláa Lónið. Varla sest hann að hér enda ekki þörf á fleiri stórtækum fjártökumönnum í okkar litla landi.
Og ekki veit ég hver kemur til með að eiga lúxúshótelið sem verið er að koma á laggirnar í Fljótum norður. Það á að sögn að vera fyrir moldríka útlendinga sem fluttir verða til landsins í þotum og síðan þyrlum á áfangastað og allur kostur meðan hér er dvalið mun eiga að koma erlendis frá ásamt starfsliði!
Stórkostlegt?
Varla.
Auðkýfingar eyðilögðu markaðsverð á jarðnæði á Íslandi í aðdraganda hruns. Venjulegur Íslendingur gat ekki lengur keypt jörð eins og áður var. Sama mun gerast á flestum sviðum ef "Meet in Reykjavík, Bláa lónið, Icelandair Group og Landsbankinn" hafa árangur af erfiði sínu. Við munum ekki fara á veitingastaði og njóta aðkeyptrar þjónustu sem príslögð er eftir kaupgetu milljarðamæringa.
Landsbankinn? Hvað er hann að gera í þessu samkrulli? Er þetta ekki banki í almannaeign sem á að þjónusta landsmennina sem viðskiptabanki? Langar bankann til að verða ferðaskrifstofa? Eða bara eitthvað mikið og stórt og ríkt, einsog fyrir hrun?
Hvernig væri að þeir sem hér stýra för gerist ögn hófsamir og nægjusamir - leyfi hlutunum að gerast hægt og rólega en ekki hraðar en hjá öllum öðrum og stærra og meira en hjá öllum öðrum - byggi ekki allir lúxushótel um leið, sprengi prísa eins hátt og hægt er - og þegar það dugar ekki til - flytji þá inn ennþá ríkara fólk ..... og svo?
Svo hrynur allt aftur. Og við fáum öll að borga.