BLAÐAÐ Í BÓK OG BLAÐI
Bókin er Rauði þráðurinn og blaðið er Morgunblaðið, eina dagblaðið sem gefið er út Íslandi. Öðru vísi mér áður brá. Hver veit nema Heimildinni eigi eftir að aukast ásmegin og fari að koma út daglega – myndi gera því blaði gott því augljóst er að þar á bæ er mörgum mikið mál og þyrftu að geta létt á sér tíðar. Áskrifendur myndu eflaust fagna. En það er önnur saga.
Í Mogga helgarinnar gætir ýmissa grasa. Ég staðnæmist við tvær fréttir sem hafa pólitíska þýðingu. Í fyrsta lagi er enn stigið skref í þá átt að hervæða Ísland á nýjan leik, tengja okkur enn sterkari böndum hervél Bandaríkjanna og NATÓ. Á forsíðu er okkur sagt að á komandi tíð megi búast við tíðari heimsóknum herskipa til Íslands og inni í blaðinu er kynnt að fljótlega sé væntanlegur fyrsti bandaríski árásarkafbáturinn.
Áður - rétt fyrir síðustu Alþingiskosningar – var okkur kynnt að heimsóknir bandarískra árasarflugvéla yrðu nú tíðari. Myndin hér að neðan er úr bók minni Rauða þræðinum þar sem segir frá þessu.
Á öðrum stað í Morgunblaðinu er umfjöllun Björns Bjarnasonar um þessa jákvæðu þróun að því er honum þykir. Hann segir að bæði forsætisráðherrann og utanríkisráðherrann hafi lagt áherlsu á að öryggisstefna Íslands verði virt en þar sé að finna yfirlýsingu um að Ísland sé friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum.
Þetta væri að sjálfsögðu hið besta mál ef ekki væri til málamynda og til að slá ryki í augu fólks. Betra væri að koma hreint fram og viðurkenna þessa auknu skuldbindingar Íslands gagnvart NATÓ.
Þar fyrir utan er vitað er að Bandaríkjamenn munu aldrei segja satt þegar kjarnorkuvopn eru annanrs vegar. Það er meira að segja opinber stefna af þeirra hálfu að segja aldrei af eða á um það hvort kjarnorkusprengjur séu um borð í skipum þeirra eða flugvélum “af öryggisástæðum”.
Bandaríkin eru eina ríki veraldar sem beitt hefur kjarnorkuvopnum og það gegn almennum borgurum. Það sem meira er, fyrir hönd bandaríska ríkisins hefur því aldrei verið lýst yfir að það hafi verið röng ákvörðun að beita kjarnorkuvopnum eins og gert var í Japan í ágúst árið 1945 með hrikalegum afleiðingum og enn segja bandarísk stjórnvöld að beiting kjarnorkuvopna sé mögulegur valkostur af þeirra hálfu. Þetta er náttúrlega augljóst mál ella væru fluvélar þeirra og skip ekki á ferðinni með þessi vopn.
Þetta veit heimurinn allur og er það lítil friðþæging að í yfirlýsingu Stjórnarráðs Íslands sé að finna framangreinda katta-þvottar-klásúlu. Auðvitað ætti Ísland að stíga út úr bandalagi sem byggir á öðrum eins tvískinnungi og siðleysi og NATÓ gerir. Það er þó greinilega ekki á döfinni, ekki einu sinni við því að búast að Alþingi samþykki að árásirnar á Nagsaki og Hiroshima hafi verið fjöldamorð. Samt voru þessar árásir ótvírætt gerðar með það fyrir augum að eyðlieggja sem mest og myrða sem flesta. Afleiðingarnar voru að koma í ljós um langt árabil í alls kyns vanskapnaði vegna geislavirkni en látnir og særðir í árásunum sjálfum voru að minnsta kosti tvö hundruð þúsund manns. Ekki held ég að nokkur véfengi þær tölur. Ekki heldur árásarríkið sjálft – bandalagsríki Íslands í NATÓ, sama ríkið og ríkisstjórn Íslands býður nú velkomið með árásarvélar sínar.
En setur það Íslendinga í einhverja hættu – geri þá að skotmarki komi til stríðs – að tengjast hervél Bandaríkjanna og NATÓ nánar eins og boðað er? Ekki telur Björn Bjarnason vera minnstu hættu á því. Og við hvað skyldi hann styðjast? Kolbrún utanríkisráðherra segir það vera svo. Þar höfum við það.
Hin fréttin sem ég staldra við er opnun nýja hússins fyrir opinbera fjársýslu. Þar segir að þessa dagana sé ekki einvörðungu verið að opna nýtt hús undir handritin heldur einng fyrir embætti Ríkisskattstjóra og Fjársýslu ríkisins.
Sá er þó munurinn á þessum húsum að annað eigum við en hitt ekki. Hvernig í ósköpunum ætlar ríkisstjórnin að réttlæta þessa meðferð á skattfé? Það er löngu sannað mál að leiga á húsnæði undir opinbera stjórnsýslu ER MIKLU DÝRARI kostur en að ríki eða sveitarfélög eigi sjálf sitt húsnæði. Eða hvers vegna skyldu fjárfestar sækjast eftir því að leigja opinberum aðilum húsnæði undir starfsemi sína?
Svarið er augljóst: Til þess að geta grætt á því.
Hagsmunagæslumenn fjámagnsins passa upp á sína.
En hvar eru þeir sem eiga að gæta hagsmuna samfélagsins?
Landamæri reiknilistar og stjórnmála hét pistill sem ég skrifaði í ágúst árið 2021 þegar greint var frá þeim áformum ríkisstjórnarinnar að láta fjárfesta leigja sér húsnæði undir Fjársýsluna og embætti Ríkisskattstjóra. Undir lok greinarinnar spyr ég hvort embætti Ríkisendurskoðanda hafi verið spurt álits á þessu ráðslagi, þar sem því embætti er ætlað að hafa eftirlit með ráðstöfum fjármuna almennings. Ekki veit ég hvort þetta var gert. Ég hef ekki orðið var við að fjölmiðlar hafi spurt út í þetta. Það væri hins vegar fróðlegt að heyra svör ríkisstjórnarinnar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/landamaeri-reiknilistar-og-stjornmala