Fara í efni

BOÐAR EKKI-FRUMVARP

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 14.10.13.
Birtist í Morgunblaðinu Í upphafi þings birtir Stjórnarráðið jafnan skrá yfir frumvörp sem til stendur að leggja fyrir þingið. Það var gert að venju í upphafi mánaðar. Fram kemur að á meðal  þingmála sem í vændum eru frá innanríkisráðherra er „Frumvarp til laga um breytingu á lögum um happdrætti, nr.38/2005 o.fl."
Skýring  á þessu frumvarpi  innanríkisráðherra er svohljóðandi: „ Um er að ræða endurskoðun á ýmsum lögum er varða happdrætti og spilakassa. Frumvarpið felur ekki í sér nýja eftirlitsstofnun."  Lengri er skýringin ekki.
Fyrir síðasta þingi lá frumvarp sem ég hafði lagt fram sem stjórnarfrumvarp og byggði á því sem ég taldi vera málamiðlun um breytingar á spilaumhverfinu í landinu, málamiðlun á milli þeirra sem eru tiltölulega sáttir við þetta umhverfi og hinna sem eru mjög ósáttir. Í hópi hinna síðari hef ég verið en viljað engu að síður finna ásættanlegan milliveg og lagt mikla vinnu í að finna hann.  
Happdrættin og handhafar leyfa fyrir spilakassa féllust á þá málamiðlun sem umrætt frumvarp bauð upp á, eða svo skildist mér, þótt misáköf væru þau til annars en þess  sem tryggði betur tekjur þeirra. Hér væri þó alrangt að alhæfa því margir sem að þessari nokkurra missera vinnu komu, sýndu mikla ábyrgð, sanngirni og góðan samstarfsvilja.
Ég taldi, og tel það enn vera  grundvallaratriði að efla eftirlit með þessum rekstri sem veltir hátt í tuttugu milljörðum árlega og lagði ég til að komið yrði á fót, að norskri fyrirmynd, sérstakri sjálfstæðri stjórnsýslueiningu, Happdrættisstofu,  sem væri til aðhalds og eftirlits og löggjafanum til ráðgjafar en hefði jafnframt það hlutverk að beina  fjármagni til aðila sem annast endurhæfingu og forvarnir á þessu sviði.
Örlítið brotabrot af milljónunum tuttugu þúsund  átti að renna til þessarar nýju sjálfstæðu einingar og skiptast á milli framangreindra þátta, stjórnsýslunnar annars vegar og forvarnanna hins vegar.
Ég hef átt samræður við fulltrúa núverandi ríkisstjórnar og hvatt til málamiðlunar á þessum forsendum.
Nú liggur svarið fyrir: Frumvarpið felur ekki í sér eftirlit og forvarnir á framngreindum forsendum. Óvenjulegt er að taka það sérstaklega fram þegar frumvarp er kynnt, hvað það er sem EKKI á að gerast við lögfestingu þess.  En ef aðalatriðið er að komast ekki að samkomulagi, og að tiltekið frumvarp verði þannig ekki-frumvarp, þá hlýtur það vissulega að eiga að segjast hvað frumvarpið ekki er.
Og fyrir hreinskilnina ber að þakka.