Fara í efni

BOÐIÐ TIL VEISLU

Í vikunni kom út bók sem án efa er mörgum kærkomin: Snorri, Ævisaga Snorra Sturlusonar, eftir Óskar Guðmundsson, fræðimann í Reykholti. Ég fæ ekki betur séð en að með þessari bók sé verið að færa góðgæti upp á veisluborð bókmenntanna.

Í gær fékk ég Snorra að gjöf frá fyrrum samstarfsfólki mínu og er hún kærkomin. Í prólógus segir höfundur að fáir menn hafi átt eins "brýnt erindi við heiminn" og Snorri Sturluson auk þess sem hann hafi lifað viðburðaríku og áugaverðu lífi - "sínu einstaklingsbundna ævintýri, svo sem ævi allra er...", svo vitnað sé í litla en skemmtilega athugasmemd höfundar. Hún er skemmtileg því hún er spegill á mannvinsamlega lífssýn.

Fáir menn skírskoti "til fólks á öllum tímum" í eins ríkum mæli og Snorri Sturluson gerir, segir Óskar Guðmundsson ennfremur. Snorri hafi þurft að kljást við höfðingja innanlands og utan, börnin sín og breyskleika sína. En þessi maður sem barðist við heiminn fyrir átta öldum hafi engu að síður sigrað hann. Það hafi hann gert með bókmenntunum!

Óskar Guðmundsson opnar okkur nýja sýn á þennan bókmenntarf með ritverki sínu. Sjálfur er ég rétt að hefja lesturinn, staddur á hlaðinu á Odda á Rangárvöllum sumarið 1181 ásamt hinum unga sveini Snorra, föður hans Sturlu Þórðarsyni og Jóni Loftssyni sem tekið hafði Snorra í fóstur...Ég geng spenntur inn í veisluhöldin sem Óskar Guðmundsson hefur efnt til.

Nú þurfa Íslendingar á því að halda að sigrast á heiminum - þar með eigin breyskleikum. Við þurfum að virkja allt það besta úr sögu okkar og menningu sem verða má okkur til halds og trausts.

Þakka þér framlagið Óskar. Meira um Snorra síðar.