BOGI OPNAR GLUGGANN
06.02.2008
Í langan tíma hefur RÚV verið í bindindi hvað varðar erlenda fréttaskýringarþætti. Einn og einn þáttur hefur litið dagsins ljós en það hefur þá verið undantekningin sem sannað hefur regluna. Ég hef margoft gagnrýnt þessa undarlegu sveltistefnu, jafnframt því sem ég hef furðað mig á því að stjórnendur RÚV skuli ekki hafa áttað sig á því að eftirspurn er eftir efni af þessu tagi. Að mínu mati er þetta líka spurning um sjálfstæði þjóðarinnar, að hún brjóti málefni umheimsins til mergjar á eigin forsendum.
Í fyrsta þætti Boga Ágústssonar í röð þátta þar sem hann ræðir við ýmsa erlenda menn sat utanríkisráðherra Noregs fyrir svörum. Ýmislegt athyglisvert kom þar fram sem snertir samskipti Íslands og Noregs. Þá þótti mér athyglisvert hve afdráttarlaus Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra, var gagnvart innrásinni í Írak. Vafningalaust lýsti hann því yfir að Norðmenn styddu ekki Bandaríkjamenn í Írak. Svona talar ekki íslenskur sósíaldemokrat. Ekki Ingibjörg Sólrún. Ef til vill kynni hún að gera það í ríkisstjórnarsamstarfi við Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Þá væri hún í svipaðri stöðu og norski Verkamannaflokkurinn sem er í samstarfi við SV, systurflokk VG í Noregi. Með Geir H. Haarde sér við hlið er slíkra gagnrýninna tóna ekki að vænta frá Ingibjörgu Sólrúnu eða Samfylkingunni.
Boga Ágústssyni þakka ég fyrir áhugaverðan þátt og vona ég að Sjónvarpið komi til með að gera honum gerlegt að ráðast í verulega metnaðarfulla dagskrárgerð um erlend málefni. Það veitir ekki af því að opna glugga Sjónvarpsins út í heim og efna til umræðu um alþjóðamál á okkar forsendum.