Fara í efni

BÓKUN ÁLFHEIÐAR

Getur verið að fjölmiðlar hafi ekki almennilega kveikt á perunni, nefnilega að Álfheiður Ingadóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í stjórn Landsvirkjunar, greiddi ein atkvæði gegn tillögu um að hafnar skyldu viðræður við Alcan um orkusölu til stækkunar álversins í Straumsvík í 460 þúsund tonna framleiðslu á ári? Sannast sagna kann ég ekki aðra skýringu á sinnuleysi þeirra um afstöðu fulltrúa VG í Landsvirkjun. Ef til vill horfir þetta til bóta því í dag sendi þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs frá sér ályktun um "stækkunarviðræðurnar" ásamt bókun Álfheiðar Ingadóttur, en bókun hennar er svohljóðandi:

"Ég greiði atkvæði gegn þessari tillögu af eftirfarandi ástæðum:
1. Að mínu mati er Landsvirkjun alls ekki í stakk búin til að hefja umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir meðan enn sér ekki fyrir endann á byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Ljóst er að eiginfjárstaða fyrirtækisins mun versna eftir því sem líður á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og að nýjar virkjunarframkvæmdir á sama tíma munu valda enn frekari lækkun eiginfjárhlutfalls. Ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaða áhrif það muni hafa á lánshæfi fyrirtækisins né þeirri spurningu svarað hvort hugmyndin er að óska eftir beinum fjárframlögum auk nýrra ábyrgða frá eigendum til þessara framkvæmda.
2. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur leitt til mikils kapphlaups þriggja álfyrirtækja um síðustu gígavattstundirnar sem Kyótó-bókunin heimilar íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa til stóriðju án greiðslu fyrir losunarheimildir. Alcan vill stækka í Straumsvík, Alcoa reisa álver á Húsavík og Norðurál í Helguvík. Stjórnvöld hafa blygðunarlaust ýtt undir þessi áform og att landshlutum saman með því að gefa öllum fyrirtækjunum í skyn að af samningum um raforkusölu geti orðið. Slíkar áætlanir eru innistæðulausar þar sem í hæsta lagi eitt fyrirtæki getur vænst þess að vera undanþegið greiðslum fyrir losunarkvóta skv. "íslenska ákvæðinu" í Kyótó-bókuninni. Verði stækkað í Straumsvík eru ekki til losunarheimildir fyrir álver á Húsavík svo dæmi sé tekið. Allt tal um annað er blekkingarleikur og lýsandi dæmi um ábyrgðarleysi stjórnvalda sem stefna leynt og ljóst að því að fara langt fram úr þeim losunarheimildum sem fyrir hendi eru."

 Ábyrgðarlaust að hefja viðræður við Alcan

Í ályktun þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er samþykkt stjórnar Landsvirkjunar gagnrýnd. Þar segir m.a.: "Með því að hefja viðræður af þessu tagi við enn einn stórnotandann er náttúru landsins enn og aftur ógnað og vegið að stöðugleika efnahagslífsins. 
Það er ábyrgðarlaust af Landsvirkjun að hefja slíkar viðræður við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu ekki síst með tilliti til þess hvað framkvæmdirnar á Austurlandi hafa aukið á óstöðugleika í hagkerfinu og m.a. valdið gríðarlegri hækkun krónunnar, sem er svo íþyngjandi fyrir atvinnuvegina að útflutningsfyrirtæki eru farin að flýja land og fyrirtæki í nýsköpun að leggja upp laupana.  Stöðugleika efnahagslífsins er teflt í enn meiri tvísýnu og verður ekki betur séð en ríkisstjórnin, sem kyndir undir þessari samkeppni orkufyrirtækjanna, ætli sér að viðhalda þessu ófremdarástandi allt fram til ársins 2012. Af því tilefni er rétt að spyrja ríkisstjórnina: Hversu lengi á annað atvinnulíf að hafa biðlund?
Vinstrihreyfingin - grænt framboð tekur undir sjónarmið Álfheiðar Ingadóttur eins fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar, sem ein greiddi atkvæði gegn tillögunni um orkusöluviðræður við Alcan".