Fara í efni

BÖRN SÍNS TÍMA

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogganum 07/08.07.12.
Ein mesta bylting 20. aldarinnar er húsnæðisbyltingin. Þegar fólk flykktist úr sveitinni á mölina um miðbik aldarinnar varð það hlutskipti margra fjölskyldna að hafna í mjög lélegu húsnæði, bröggum eftir hernámsliðið eða húskofum sem hróflað hafði verið upp af litlum efnum. Framboð á húsnæði annaði engan veginn eftirspurn en svo var einnig hitt að efnalítið fólk hafði ekki fjárráð til að standa straum af kostnaði við kaup á eigin húsnæði.
Við þessar aðstæður urðu verkamannabústaðir til en áður hafði hugmyndin - hugsjónin - þessi sjálfsögðu mannréttindi, orðið til og öðlast merkingu. Og bústaðirnir voru ekki af verri endannum. Þegar Héðinn Valdimarsson og félagar stóðu í fararbroddi fyrir byggingu verkamannabústaða var haft á orði hve háar gæðakröfur þeir settu fyrir skjólstæðinga sína. Með tilkomu verkamannabústaða komst efnalítið fólk úr heilsuspillandi húsnæði í góðar og vandaðar íbúðir.

Verkamannabústaðirnir gerbreyttu lífi þúsunda Íslendinga. Þetta varð lífskjarabylting. Og sú bylting varð fyrir baráttu verkalýðshreyfingar og félagslegra afla í stjórnmálum bæði fyrir stríð og eftir. Þessi öfl mynduðu órofa samstöðu um þetta málefni. Það var ekki að ástæðulausu að menn dásömuðu samstöðuna.

Menn uppgötvuðu að með sameiginlegu átaki - samstöðunni - var allt gerlegt. Þetta vissi kynslóð Héðins. Og síðar Eðvarðs, Péturs Sig. og Guðmundar J. Þetta fengu verkamennirnir í Gdansk í Póllandi eining að reyna þegar þeir brutu niður ofríki valdstjórnarkerfisins pólska upp úr 1980. Það gerðu þeir undir merkjum samstöðu - Solidarnosc. Þeir vissu hvað þeir vildu og sameinuðust um að hrinda baráttumarkmiðum sínum í framkvæmd.

En tíminn líður og baráttumarkmiðin vilja gleymast, hugsjónir trénast og stofnanavæðast.  Eftir stendur formið. Verkamannabústaðirnir voru reistir til að auðvelda efnalitlu fólki að komast í heilsusamlegt og gott húsnæði. Það var takmarkið. Verkamannabústaðir voru  leiðin að því marki en ekki takmarkið sjálft.

En svo koma  nýjar lausnir til sögunnar; þá reynir á að menn festist ekki í gömlu hjólfari, taki ekki ástfóstri við form en gleymi sjálfu innihaldinu. Kannski er Búsetaformið snjöll lausn? Eða kaupleiga?

Eins er það um stjórnmálaflokka. Þeir eru upphaflega myndaðir um markmið og hugsjónir.  Þeir áttu - og eiga -  að vera tæki til að koma sameiginlegum stefnumiðum í framvæmd.   Síðan vill það gerast að þeir öðlist sjálfstætt líf.

Með öðrum orðum, hagsmunir verða markmið, hagsmunir og markmið verða hugsjón og til verður tækið - flokkurinn. En þá fyrst reynir á; að menn muni að spyrja öllum stundum, til hvers?

Ég hef stundum sett fram þá kenningu í gamni en einnig alvöru, að ef úr heilabúi sérhvers alþingismanns væri numin brott vitneskjan um hvaða stjórnmálaflokki hann tilheyrði, þá reyndi á að hann treysti á eigin dómgreind. Þá yrði líka margt öðru vísi á þingi. Ef þingmenn hugsuðu einvörðungu með hliðsjón af markmiðum sem þeir vilja ná fram en ekki fylgispekt við stjórnmálalaflokk þá er ég sannfærður um að menn skipuðust stundum í annars konar fylkingar og breytilegri en nú er, þar sem flokksaginn er ráðandi.

Auðvitað endurspegla stjórnmálaflokkar í grófum dráttum skoðanir manna og þar með stefnumarkmið, einkum þegar flokkar eru ungir að árum og markmiðin fersk.
En svo líður tíminn og flokkurinn öðlast sjálfstætt líf sem menn samsama sig. Þá er ekki að sökum að spyrja.

Mín tilfinning er sú að með aukinni áherslu á beint lýðræði, sem ég er sannfærður um að muni ryðja sér til rúms á 21. öldinni, muni draga úr vægi stjórnmálaflokka. Og það sem meira er, þeir munu verða lausbeislaðri, mynda samstöðuhópa, sem iðulega skarast við aðra slíka hópa um tiltekin baráttumarkmið.

Þetta væri þróun til góðs. Samstaða er nefnilega góð svo lengi sem hún er málefnaleg og byggist á markmiðum en ekki formum. Formið er alltaf barn síns tíma.