Fara í efni

BRASKAÐ MEÐ SKÓLABYGGINGAR

Jóakim
Jóakim

Um aldamótin fór Sjálfstæðisflokkurinn með meirihlutavald í Hafnarfirði. Að eigin sögn var honum umhugað um framfarir bæjarbúum til hagsbóta. Eitt helsta framfaramálið var sagt vera einkaframkvæmd í skólarekstri. Miklu betra væri að einkaaðilar ættu skólabyggingarnar og helst rækju skólana með manni og mús, heldur en að opinberir aðilar gerðu það.

Ég minnist þess að heimsækja Kastlós Sjónvarpsins og ófáa útvarpsþætti til að taka rökræðu við hafnfirska ráðamenn og aðra um þetta ráðslag; kvað ég sporin erlendis frá hræða. Öllu slíku var vísað á bug.

Þetta var þá.

Nú berast þær fréttir frá Hafnarfirði að róið sé að því öllum árum að endurheimta hinar einkavæddu skólabyggingar, slíkt sé óhagræðið og kostnaðurinn fyrir hafnfirska útsvarsgreiðendur. Í millitíðinni er reynt að ná ásættanlegri samningum við eigendur skólanna um  hvert skuli vera framlag bæjarfélagsins ofan í vasa þeirra.

Þetta finnst mér vera áhugaverðar fréttir og óska ég hafnfirskum bæjaryfirvöldum velgengni í þessum viðræðum.

En stóra samhengið vekur ekki síður athygli. Það er umfang góðabrallsins á þessu sviði. Í Fréttatímanum sl. föstudag segir að FM hús (sem mér skilst að eigi hina hafnfirsku skóla sem eru í einkaeigu) hyggist „selja skólabyggingar í Garðabæ og Hafnarfirði til tryggingafélagsins VÍS fyrri 3,7 milljarða króna. Á meðal eigna er Áslandsskóli og tveir leikskólar."

Það er nefnilega það. Þetta minnir á Blair tímann í Bretlandi þegar innviða-þjónustustofnanir/fyrirtæki gengu kaupum og sölum á milli braskara sem oftar en ekki voru uppgjafastjórmálamenn sem höfðu séð að meira var upp úr braskinu að hafa en stjórnmálunum. Þetta voru Jóakim von And og félagar.     

Skyldu stjórnmálamenn, sem hallir eru undir markaðshyggjuna, draga af þessu einhverja lærdóma? Ég efast um það. En þeir sem kjósa þessa stjórnmálamenn til valda og áhrifa? Skyldu þeir læra af reynslunni? 
Yfirleitt er það ekki fyrr en kemur að skuldadögum að menn ranka við sér. En að þeim dögum kemur alltaf - aftur og aftur!