Fara í efni

BREYTILEGT HVERJIR SNOBBA FYRIR SLETTUNUM

Á meðan útvarpsmaðurinn góðkunni, Ævar Kjartansson, kemur nærri hljóðnemanum hjá Ríkisútvarpinu er þeirri stofnun ekki alls varnað. Fjarri því.
Ef Ævar væri ekki að komast á aldur hefði hann verið kjörinn nýr útvarpsstjóri og þótt fyrr hefði verið!

Ævar hefur komið að gerð ótölulegs fjölda þátta á löngum starfsferli sínum, nú síðustu árin hefur hann stjórnað umræðuþáttum á sunnudagsmorgnum, sem síðan hafa verið endurteknir síðar.
Einn slíkur var í dag á dagskrá. Þar hafði Ævar fengið Gísla Sigurðsson, prófessor, til liðs við sig að ræða við Veturliða Óskarsson, prófessor við Uppsalaháskóla, um íslenska tungu.
Þessir þættir hafa síðustu misserin einmitt verið með því sniði að teknir eru fyrir tilteknir málaflokkar, mennta- og uppeldismál, heilbrigðismál, trúmál svo dæmi séu tekin, og hefur Ævar þá fengið kunnáttumenn á viðkomandi sviði með sér til þess að spyrja sérfrótt fólk spjörunum úr. Þetta hefur gefið góða raun, afraksturinn eru þættir sem eru vel a dýptina.

Og nú er það semsagt íslenskan sem er til umfjöllunar.

Þátturinn í dag var stórskemmtilegur og mæli ég með honum við lesendur. Slóðin er hér að neðan.
Úr honum hef ég fyrirsögnina, snobbað fyrir slettunum. Þar voru þeir félagar að bera saman okkar samtíð annars vegar og 19. öldina og reyndar fyrri aldir hins vegar. Fyrr á tíð hafi það verið elítustéttir sem snobbuðu fyrir útlendum slettum en alþýða manna hins vegar haldið íslenskunni “hreinni”. Í seinni tíð hafi þetta snúist við, hinn almenni maður – við almennt - gerst kærulausari gagnvart tungunni en “elítan” hirðusamari og reynt að halda okkur við það efni. Það hafi með öðrum orðum verið breytilegt í tímans rás hverjir hafi snobbað fyrir slettunum.

Þarna var fjallað um íslenskuvæðingu fræða- og vísindamáls – kosti þess og galla og margt fleira.
Umræða þeirra þremenninga var stórskemmtileg og vekjandi.
Hún er hér:    https://www.ruv.is/utvarp/spila/samtal/23817?ep=7hsp5g