BREYTT VIÐHORF TIL LANDMÆLINGA?
Þetta er titillinn (að undanskildu spurningamerkinu) á grein Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra, í júníútgáfu Kvarðans, fréttabréfs Landmælinga Íslands. Sigríður Anna segir Landmælingar vinna þarft verk. Vandinn sé hins vegar sá að síðustu misseri hafi "komið til árekstra milli Landmælinga Íslands og einkafyrirtækja sem bjóða landupplýsingar". Sigríður Anna segir að opinberir aðilar eigi að tryggja "tilvist og aðgengi að ákveðnum grunngögnum" sem séu nauðsynleg almannahagsmunum. Hins vegar sé "brýnt að ríkisstofnanir hverfi af samkeppnismarkaði. Með því er einkaaðilum veitt svigrúm til að starfa..." Þetta segist umhverfisráðherra ætla að tryggja með nýju frumvarpi á hausti komanda. Hún telur að þetta verði ekki aðeins til hagsbóta einkafyrirtækjum á þessu sviði heldur einnig ríkisstofnuninni sem komi til með að fá "skýrara starfssvið."
Sigríður Anna kynnir okkur þetta sem breytt viðhorf. Það held ég að sé rangt. Þetta eru þvert á móti eldgamlar hugmyndir en þær hafa hins vegar verið að festa sig í sessi síðustu ár og misseri. Á starfssviði ýmissa ríkisstofnana hafa einkaaðilar verið að sækja í sig veðrið einkum á þeim sviðum þar sem hagnaðarvon er. Einkafyrirtækin, með dyggri aðstoð Verslunarráðsins, hafa síðan reist þær kröfur á hendur ríkisvaldinu að það banni hinni opinberu stofnun að "keppa á markaði". Þessir aðilar fá gjarnan samkeppnisyfirvöld í lið með sér – að ógleymdu skipunarvaldinu í Brussel sem er mjög gírað inn á þessa hugsun. Afleiðingin er yfirleitt sú að ríkisstofnuninni er skipað að draga úr umsvifum sínum og halda sig á mottunni.
En hér er rétt að spyrja hvort þetta sé endilega gott fyrir skattgreiðendur og neytendur. Ég held ekki. Með þessari stefnu eru vaxtarsprotar ríkisfyrirtækjanna einfaldlega skornir af og þeim gert ókleift að þróast á "dínamískan hátt": Framfaraandinn er drepinn niður. Þjónkun við Verslunarráðið er þannig landsmönnum ekki í hag. Þá ítreka ég að það er ekkert nýtt eða breytt við það að Sjálfstæðisflokkurinn taki einkahagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Mér sýnist umhverfisráðherra að þessu leyti á svipuðu róli og flestir aðrir fylgismenn peningafrjálshyggjunnar. Þeirra hefur verið heldur dapurlegt hlutskipti á undanförnum árum. Það er sorglegt til þess að hugsa að nýir ráðherrar skuli allir fara í sama farið. Það sem veldur mér helst heilabrotum er þegar þeir telja sig vera að boða eitthvað nýtt þegar þeir bera á borð fyrir okkur gamlar hagfræðikenningar frá lokum 18. aldar.