Fara í efni

BRÚUM BILIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 01.07.05
Í dag, fyrsta júlí, minna alþjóðleg verkalýðssamtök og mörg önnur almannasamtök á þá hyldýpisgjá sem er á milli ríkra og snauðra í heiminum og hversu mikilvægt það er að hefjast af alvöru handa við að brúa bilið á milli þessara hópa. Það gerist aðeins með skipulögðu og samræmdu átaki á ýmsum sviðum. Þessi dagur hefur verið kenndur við “hvíta bandið” og hvetja skipuleggjendur alla sem vettlingi geta valdið að ganga með hvítt band, ýmist sem armband, hálstau eða með hvaða hætti sem fólki kann að hugnast, til að vekja athygli á málstaðnum. Eru jafnvel uppi áform um að klæða heilu byggingarnar í hvíta borða, auk þess sem fjölbreyttar uppákomur verða víða um heim. Má þar nefna svokallaða Live8 tónleika sem haldnir eru m.a. í Edinborg þar sem fundur G8-ríkjanna, voldugustu iðnríkja heims, verður haldinn á laugardag. Þar eru einnig fyrirhugaðir baráttufundir nú í byrjun mánaðarins og er búist við þátttakendum töldum í tugþúsundum.
Margumtöluð áform hinna voldugu iðnríkja þess efnis að fella niður skuldir sumra fátækustu ríkja heimsins eru vissulega skref í rétta átt þótt öllu máli skipti í því sambandi hvaða skilyrði þessum ríkjum eru jafnframt sett – því ekki er þetta gert án skilyrða nú fremur en fyrri daginn.

Niðurfelling skulda háð skilyrðum

Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem vísað hafa veginn í þessum efnum hafa reynst fátækum ríkjum varasamir leiðsögumenn á undanförnum árum. Skilyrði þeirra hafa jafnan verið að „þiggjendurnir“ markaðsvæði efnahagskerfi sín og einkavæði þar með ýmsa grunnþjónustu samfélagsins. Þetta hefur þýtt að snauðar og skuldsettar þjóðir hafa sett opinberar rafmagns- og vatnsveitur og annað það á markað sem fjölþjóðlegir auðhringir hafa viljað eignast til að hagnast á. Þegar þangað er komið hefur þessi starfsemi verið gleypt með húð og hári. Það má ekki gleymast að þótt einhverjar skuldir séu gefnar eftir fer því fjarri að tæmandi sé. Eftir sem áður eru þjóðirnar verulega skuldugar og því fjármálaöflunum auðveld bráð, sjái þau sér hag í því að komast yfir eignir þeirra.

Góð almannaþjónusta forsenda jafnaðar og framfara

Staðreyndin er sú að eigi þjóðum að auðnast að komast frá örbirgð til bjargálna er lykilatriði að þeim takist að byggja upp öflugt samfélagslegt stoðkerfi. Það verður hins vegar ekki gert ef allt sem hagnast má á er fært í hendur fyrirtækja sem hafa arðsemina eina að leiðarljósi. Hvaðanæva að úr heiminum berast nú fréttir af afleiðingum einkavæðingar almannaþjónustunnar og hve skaðleg þessi stefna hefur reynst, einkum fátækum ríkjum sem allra síst mega við því að markaðsöflunum sé hleypt inn á gafl.
BSRB hefur staðið í fararbroddi í umræðu hér á landi um gildi almannaþjónustunnar. Fyrir fáeinum árum réðust samtökin í mikla hvatningarherferð til að efla samfélagsþjónustuna og var efnt til umræðu með forsvarsmönnum ríkis og sveitarfélaga, en ekki síst á meðal félagsmanna BSRB, starfsmanna þessarar þjónustu. Við vitum sem er að góð almannaþjónusta er forsenda félagslegs jöfnuðar og þar með réttláts samfélags. Góð samfélagsþjónusta er þó einnig annað og meira. Til hennar er iðulega vísað sem stoðkerfis þjóðfélagsins vegna þess að hún er undirstaða allra annarra þátta efnahagsstarfseminnar í samfélaginu; á henni hvílir efnahagskerfið í heild. Á þessu er mikill skilningur í íslensku samfélagi. Menn vita sem er að góðir skólar, heilbrigðisþjónusta, veitukerfi af ýmsum toga, löggæsla, samgöngur og aðrir þeir þættir sem flokkast undir almannaþjónustu eru algerir lykilþættir í framvindu samfélagsins og undirstaða framfara.

Íslendingar axli ábyrgð

Við megum ekki gleyma því að hið sama gildir um fátækar þjóðir heimsins. Þeim er jafnvel enn meiri lífsnauðsyn en okkur að efla þjónustu af þessu tagi innan sinna samfélaga. Þess vegna þarf að hjálpa þeim að losna úr viðjum auðhyggjunnar sem fyrrnefndar alþjóðlegar stofnanir hafa hneppt þær í. Brosandi segjast hinar ríku þjóðir nú koma færandi hendi, veita líkn og náð og fella niður skuldir. Um forsendur og skilyrði slíkra tilboða er minna rætt.  Mikilvægt er að fjölmiðlar haldi stjórnvöldum, og reyndar okkur öllum, við efnið hvað þetta varðar.
Íslendingar eiga aðild að stjórnum Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og eigum við þar samstarf við aðrar Norðurlandaþjóðir. Nokkrum sinnum hef ég vakið athygli á málflutningi Norðurlandanna á þessum vettvangi og gagnrýnt það hve hallur hann hefur oft verið undir markaðsöflin. Og ekki má gleyma Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO.  Mikilvægt er að Íslendingar beiti sér af alefli til stuðnings fátækum þjóðum og er þar lykilatriði að við stillum okkur jafnan þétt upp við hlið þeirra sem vilja verja almannaþjónustuna fyrir gróðaöflunum en efla hana og bæta í þágu almennings.