BSRB ÁLYKTAR UM ORKUVEITU REYKJAVÍKUR
Stjórn BSRB hefur skorað á borgaryfirvöld í Reykjavík að ógilda þegar í stað samninga um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy enda ekki rétt að þeim staðið. Auk þess krefst stjórn samtakanna þess að hætt verði við áform um hlutafélagavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og kallar eftir breytingum á lögum sem komi í veg fyrir að einkaaðilar eignist náttúruauðlindir Íslands. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun sem stjórn BSRB sendi frá sér í dag. Ályktunina í heild sinni er að finna hér að neðan...
Ályktun stjórnar BSRB vegna málefna Orkuveitu
Ályktun stjórnar BSRB vegna málefna Orkuveitu Reykjavíkur, REI/GGE og Hitaveitu Suðurnesja
Nokkur áhersluatriði úr ályktun stjórnar BSRB:
- Stjórn BSRB lýsir andstöðu við einkavæðingu innan orkugeirans, hvort sem er með óbeinum hætti innan OR með gerð einkaleyfissamnings til 20 ára til handa Reykjavik Energy Invest/Geysir Green Energy (REI/GGE) eða með sölu til einkaaðila á hlut ríkis og sveitarfélaga í orkufyrirtækjum sem veita grunnþjónustu á sviði rafmagns, vatnsveitu og hitaveitu.
- Stjórn BSRB krefst að gerðar verðar þær breytingar á lögum sem komi í veg fyrir að einkaaðilar eignist náttúruauðlindir.
- Stjórn BSRB krefst þess að hætt verði við áform um hlutafélagavæðingu OR, sem býður þessari hættu heim.
- Stjórn BSRB skorar á borgarstjórn og stjórn OR að ógilda þegar í stað samninga um sameiningu REI og GGE enda ekki rétt að þeim staðið.
- Stjórn BSRB varar við að sú framvinda mála sem orðið hefur innan OR og þær hræringar sem af henni hafa leitt á sviði stjórnmála, verði til þess að skyndiákvörðun verði tekin gegn útrásarmöguleikum dótturfyrirtækja í eigu OR.
- Stjórn BSRB krefst þess að fulltrúar starfsmanna fái setu í stjórnum opinberra veitufyrirtækja
Stjórn BSRB vill að gefnu tilefni minna á mikilvægi þess að fylgt sé góðum stjórnsýsluháttum hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum þar sem gegnsæi, jafnræði og góð upplýsingagjöf er höfð í heiðri. Það er eðlileg lýðræðisleg krafa að allir kjörnir fulltrúar séu jafnan vel upplýstir um ráðagerðir sem eiga að leiða til gagngerra breytinga á stöðu og starfsemi opinberra stofnana og fyrirtækja. Óeðlilegt er með öllu að einstaka embættismenn og stjórnmálamenn fari á svig við gildandi stjórnsýslureglur og lýðræðisleg vinnubrögð og stilli þannig öðrum upp frammi fyrir orðnum hlut eins og sakir eru uppi um nú varðandi Orkuveitu Reykjavíkur. Þær meiriháttar breytingar sem tengjast málefnum hennar hefðu að sjálfsögðu átt að fá opna og ítarlega umfjöllun, ekki aðeins innan stjórnar OR heldur og innan borgarstjórnar Reykjavíkur og á vettvangi annarra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli. Án þess verða ákvarðanirnar hvorki taldar réttmætar né löglegar. Þá á almenningur skýlausan rétt og kröfu til lýðræðislegra og opinna vinnubragða af hendi kjörinna fulltrúa og embættismanna sem treyst hefur verið til þess að halda utan um samfélagslegar eignir borgaranna og gæta hagsmuna þeirra.
Stjórn BSRB lýsir andstöðu við einkavæðingu almannaþjónustu sem hér er í bígerð, hvort sem er með óbeinum hætti innan OR með gerð einkaleyfissamnings til 20 ára til handa Reykjavik Energy Invest/Geysir Green Energy (REI/GGE) eða með sölu til einkaaðila á hlut ríkis og sveitarfélaga í veitufyrirtækjum sem sinnt hafa grundvallarþjónustu á sviði rafmagns, vatnsveitu og hitaveitu. Stjórn BSRB lýsir ennfremur fullri andstöðu við það sem nú blasir við að gerist - að sala á hlutabréfum í hlutafélagavæddum opinberum orkufyrirtækjum færi náttúruauðlindir í hendur einkafyrirtækja. Minnir BSRB á að sveitarfélögum var veittur einkaréttur til vatnsveitna, hitaveitna og rafveitna til að sinna grundvallarhagsmunum samfélagsins og hafa í því hlutverki fengið umráð yfir náttúruauðlindum.
Krefst stjórn BSRB þess að gerðar verði breytingar á lögum til að koma í veg fyrir slíka einkavæðingu almannaþjónustu og afhendingu sameiginlegra náttúruauðlinda til einkaaðila. Þá krefst stjórn BSRB þess að hætt verði við áform um hlutafélagavæðingu OR, sem býður þessari hættu heim. Ennfremur skorar stjórn BSRB á borgarstjórn og stjórn OR að samningar um sameiningu REI og GGE verði ógiltir sem allra fyrst enda ákvarðanaferlið allt sem til þeirra leiddi í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti og reglur. Aðgerðaleysi má ekki verða til að festa í sessi umdeildar ráðstafanir á eignum OR og afdrifaríkar ákvarðanir um rekstrarform sem snerta bæði OR og Hitaveitu Suðurnesja.
Þá varar stjórn BSRB við að sú framvinda mála, sem orðið hefur innan OR og þær hræringar sem af henni hafa leitt á sviði stjórnmála, verði til þess að skyndiákvörðun verði tekin gegn útrásarmöguleikum dótturfyrirtækja í eigu OR. Bendir stjórn BSRB á að Sameinuðu þjóðirnar hvetja nú til samstarfs opinberra veitufyrirtækja, aðallega á sviði vatnsveitna, til að ná megi settum þúsaldarmarkmiðum SÞ sem flest ríki heims og Ísland þar á meðal hafa skuldbundið sig til að vinna að. Reynslan hefur sýnt að útrás einkafyrirtækja inn á svið samfélagsþjónustunnar hefur almennt haft neikvæðar afleiðingar í för með sér og þ.á m. verið mjög áberandi þegar neysluvatn og veitustarfsemi er annars vegar. Stjórn BSRB hvetur því til að opnir og gegnsæir stjórnunarhættir verði efldir innan OR, sem og annarra opinberra fyrirtækja, að settum reglum verði fylgt, að fulltrúar starfsmanna fái setu í stjórnum og að efnt verði til almennrar umræðu um eðli og tilgang útrásar íslenskra orkufyrirtækja. Allt yrðu þetta jákvæð skref í átt til enn betri samfélagslega rekinnar almannaþjónustu.