BSRB MÓTMÆLIR FORRÆÐISHYGGJU OG FREKJU
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, hefur lýst því yfir opinberlega að atvinnurekendur muni hvetja ríkisstjórnina til að hlíta í einu og öllu því sem SA komi til með að semja um við sína viðsemjendur. Hvað felst í þessu? Tvennt felst í þessu: Annars vegar krafa um að ríkisstjórnin hundsi samningsrétt sinna viðsemjenda. Hins vegar er þetta krafa um að ríkisstjórnin svíki gefin fyrirheit um að bæta verulega kjör stétta innan velferðaþjónustunnar sem víða á orðið í erfiðleikum með að reka sig vegna manneklu. Manneklan skýrist af miklu álagi og bágum kjörum.
Í dag sendi stjórn BSRB frá sér mjög afdráttarlausa yfirlýsingu þar sem forrræðishyggja Samtaka atvinnulífsins er harðlega gagnrýnd og þess krafist að samningsréttur samtaka launafólks innan velferðarþjónustunnar verði virtur.
Hvað vakir fyrir Samtökum atvinnulífsins? Eru atvinnurekendur að hjálpa ríkistjórninni við að svíkja viðsemjendur sína og hundsa samningsrétt þeirra?
Eftirfarandi er samþykkt BSRB:
Stjórn BSRB mótmælir harðlega þeirri kröfu sem Samtök atvinnulífsins hafa sett fram á hendur ríkisstjórninni um að hún fylgi þeirri launastefnu sem mótuð verði við samningaborð Samtaka atvinnulífsins. Þessi krafa um forræðisvald atvinnurekenda er ósvífin og ólýðræðisleg því hún byggir á því að hundsaðar verði kröfur sem fram koma frá hendi samtaka opinberra starfsmanna í kjarasamningum þegar þeir losna í vor. Krafan er einnig ósvífin að því leyti að hún byggir á því að launakjör á þeim stofnunum sem nú búa við vaxandi manneklu vegna bágra kjara verði ekki leiðrétt eins og margoft hefur verið látið í veðri vaka af hálfu stjórnvalda að gert verði í komandi kjarasamningum.
Síðan er hollt fyrir SA að hafa í huga að í þjóðfélaginu er ekki samþykki fyrir því að samtök atvinnurekenda hafi á hendi úrskurðarvald yfir kjörum alls launafólks. Í landinu er frjáls samningsréttur og fer því fjarri að hann sé allur á forrræði SA.
Standi vilji SA til þess að semja á einu borði um samræmda stefnu þá er það sjálfstæð ákvörðun sem semja verður um. Engin slík ákvörðun hefur verið tekin enda nokkuð í land að samningar aðildarfélaga BSRB við ríki og sveitarfélög verði lausir.